Fara í efni
Menning

„Löng verkföll geta leitt til brottfalls“

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari VMA, og Karl Frímannsson, skólameistari MA, í fertugsafmæli Verkmenntaskólans á síðasta ári. Mynd: Skapti Hallgrímsson

„Þetta er í fyrsta lagi hundfúlt og ég met stöðuna þannig að nú sé deilan komin í alvarlegan hnút,“ sagði Karl Frímannsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri í dag eftir að Samband íslenskra sveitarfélaga ákvað að samþykkja ekki innanhússtillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í gær í kjaradeilu kennara við ríki og sveitarfélög. Verkfall kennara, sem hófst á miðnætti, heldur því áfram.

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, lýsti einnig yfir vonbrigðum í dag.

Það er engu líkara en að ríkið sé viljalaust verkfæri við þetta samningaborð

„Ef verkfallið dregst á langinn hef ég mestar áhyggjur af nemendunum, því það hefur sýnt sig áður, að löng verkföll leiða til aukins brottfalls úr námi,“ sagði Karl Frímannsson í dag. Hann nefnir þó að samt sé erfitt að hafa stórar skoðanir á framgangi mála, þar sem það sé allt í höndum samningaaðila. Vonin er hins vegar sú að samningar náist sem fyrst.

„Auðvitað vill maður vera vongóður um að deiluaðilar nái lendingu, en ef að satt reynist að í boði sé 22% launahækkun, sem ég var að lesa í fréttum rétt áður en þú hringdir og það náist samt ekki sátt, veit ég ekki hvað skal halda,“ segir Karl, en blaðamaður Akureyri.net hringdi í hann síðdegis, ekki löngu eftir að fréttir bárust af því að ákvörðun Sambands íslenskra sveitarfélaga. „Hinn þátturinn sem deilt er um, er uppsagnarákvæði sem kennarar vilja hafa inni í samningnum með öðrum hætti en viðsemjendur “ segir Karl. „Ef ekki næst samstaða um þessa þætti þá er að mínu viti eitthvað fleira sem býr að baki sem við höfum ekki forsendur til að meta.“

Þegar ljóst var orðið að Samband íslenskra sveitarfélaga ætlaði ekki að samþykkja miðlunartillöguna heyrðist hvorki hósti né stuna frá samninganefnd ríkisins sem þó er viðsemjandi Félags framhaldsskólakennara og Félags stjórnenda í framhaldsskólum. „Mér finnst gagnrýnivert að ríkið og samninganefnd ríkisins, gefi ekki út yfirlýsingu um hvort hún sé sammála eða ósammála því tilboði sem liggur á borðinu. Þau gefa í raun ekkert út um sína afstöðu sem eru ekki góð skilaboð inn í framhaldsskólasamfélagið,“ segir Karl. „Það er engu líkara en að ríkið sé viljalaust verkfæri við þetta samningaborð. Það sem er öðruvísi en áður er að öll félög innan KÍ eru í samfloti og semja því ekki sitt í hvoru lagi. Þá fyndist mér að ríki og sveitarfélög ættu að standa betur saman og tala einum rómi. En maður heyrir ekkert í ríkinu í þessari deilu, bara ríkissáttasemjara, Sambandi sveitarfélaga og KÍ.“

Lítill slagkraftur í verkfallsaðgerðum

Hlutfallslega eru langflestir framhaldsskólakennarar í verkfalli hér á Akureyri, bendir Karl á, þar sem ákveðið var að greiða skyldi atkvæði um verkfallsboðun í báðum skólunum. „Ég er nú að benda á þetta vegna þess að með því fyrirkomulagi næst lítill slagkraftur í verkfallsaðgerðir á landsvísu nema verkfallið dragist á langinn og skólunum fjölgi sem boða til verkfalls,“ segir Karl.

„Fyrsta sem ég hugsaði, þegar hluti kennara í grunnskólum landsins gengu út eftir að fréttirnar bárust um hádegi, var að þetta lýsti því betur er mörg orð, hve staðan er alvarleg,“ segir Karl. „Það er lögvarinn réttur grunnskólabarna að fá kennslu 180 daga á ári í 10 ár en aðgerðir af þessu tagi eru utan ramma verkfalla og það þarf mikið til að kennarar grípi til þessara ráða.“

Óvissan erfið fyrir nemendur

„Í gær og fyrradag var spenna í lofti í skólanum, nemendur hafa áhyggjur og það er óvissan sem er verst fyrir þau,“ segir Karl. „Þau eru óviss með námið, sum hafa áhyggjur af brautskráningu, skipulaginu og verkefnunum og mörgu fleiru. Óvissan lýtur að því að enginn getur sagt þeim hvenær þessu lýkur. Þau geta ekki gert ráðstafanir, vita ekki hvað bíður þeirra og því höfum við lagt mikla áherslu á að þau haldi í reglubundnar venjur, fari að sofa á skynsamlegum tíma og vakni á morgnana til að læra, sinni áhugamálum eða geri það sem þeim þykir skemmtilegt. Sum eru nú þegar búin að ráða sig í vinnu svo dæmi sé tekið.“

Verkfall í MA hófst í dag líkt og í Verkmenntaskólanum og Tónlistarskólanum, samkvæmt skipulagi verkfallsaðgerða KÍ. „Heimavist MA og VMA og mötuneytið eru opin og verðu áfram, og skólinn er opinn yfir daginn,“ segir Karl. „Það er starfsfólk á bókasafninu og skrifstofunni, hægt er að fá tölvuaðstoð, hjúkrunarfræðingur er með viðtalstíma svo dæmi sé tekið. Ég fór upp á heimavist í hádeginu og spjallaði við nokkra nemendur, en þar voru þau flest að bíða eftir fréttum eins og ég. Það eru 315 íbúar á vistinni, 145 úr MA og 170 í VMA. Mörg þeirra voru ennþá í húsi en ég reikna með að flest fari heim í í dag í ljósi stöðunnar.“

Leikfélag MA æfir leikritið Galdrakarlinn í OZ um þessar mundir, en frumsýning verður 14. mars. „Krakkarnir sem taka þátt í leikritinu og búa á vistinni eru ekki að fara heim. Æfingar halda áfram þar sem sú vinna er ekki undir stjórn kennara þannig að þau geta haldið sínu striki“ segir Karl að lokum, en eflaust verður einmanalegt fyrir þessa krakka á vistinni ef verkfallið dregst á langinn.

Ánægð með útgönguna

Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans, varð fyrir vonbrigðum í dag eins og fleiri. „Það eru vonbrigði að ekki náðist að semja og þögn samninganefndar ríkisins er líka mikil vonbrigði að mínu mati,“ sagði Sigríður Huld og tók þar í sama streng og Karl Frímannsson.

„Það voru mér líka mikil vonbrigði hversu lítið við erum upplýst og hve lélegt upplýsingaflæði var bæði til okkar og nemenda, allra þeirra sem voru að bíða eftir fréttum seint í gærkvöldi. Það er á ábyrgð allrar samninganefndarinnar.“

Spurð um viðbrögð við þeirri ákvörðun kennara í ýmsum skólum að ganga út af vinnustaðnum í dag, eftir að sveitarfélögin samþykktu ekki innanhússtillögu ríkissáttasemjara svaraði Sigríður: „Ég er ánægð með að þau láti skoðun sína í ljós með þessum hætti og hefði viljað sjá framhaldsskóla sem ekki eru í verkfalli sýna sama hugrekki.“

Hvernig skólakerfi viljum við?

„Nú er komið að þeirri stundu að við verðum að taka ákvörðun um það hvernig skólakerfi við viljum hafa á Íslandi,“ sagði Sigríður í dag. „Nú er tækifæri til að reyna að horfa meira til framtíðar og það þýðir að allir aðilar verða að líta í eigiun barm, bæði samninganefndir og kennarar; það verður að koma á einhverri sátt um kennarastarfið. Við getum ekki verið áratug eftir áratug í verkföllum nánast yfir sömu hlutunum og þá er ég ekki eingöngu að tala um laun. Starfsumhverfi kennara þarf að breyta og það kostar peninga og þá þarf kannski að tryggja sveitarfélögum betri fjármögnunum til menntamála til að geta gert það. Þetta er ekki einfalt mál að leysa en það þarf að gera eitthvað.“