Fara í efni
Menning

„Pabbi minn, nú ætla eg að fara að deyja“

Í dag birtist 11. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net miðlar rannsókninni með þeim hætti að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Gefum Unu orðið:_ _ _

Sveinn og Sigríður eignuðust alls átta börn saman en þrjú þeirra dóu úr barnaveiki á stuttum tíma. Ármann dó um mánuði fyrir 5 ára afmæli sitt og Sigríður systir hans nokkrum dögum seinna, þá aðeins 7 ára. Sigríður móðir þeirra var þá ólétt af fimmta barni hjónanna og fæddist Ármannía Sigríður stuttu eftir dauða systkina hennar. Hún lifði í tæpan mánuð áður en hún dó. Lengi hefur verið viðtekin söguskoðun að fólk fyrr á öldum hafi verið svo vant því að börn þeirra dæju ung að það hefði verið minna mál fyrir þau að glíma við dauða barna sinna en í dag. Dagbækur Sveins sýna aftur á móti að það var langt frá því að vera satt og færslurnar frá þessum tíma lýsa erfiðleikum hans við að takast á við þetta. Hér eru valdar dagbókarfærslur frá þessum vikum. Athugið að skýringar á skammstöfunum eru aftast í færslunni.

30. ágúst 1860

Norðan húðar rigning framanaf. Eg beið eptir amtmanni framundir kvöld, heldum svo með Thotu og fl. úteptir og heim um nóttina. Helga vann hjá amtmanni. A meðan eg var í burtu varð Sigríður litla mín mjög lasin með hósta og hæsi, og lét k.m. hana taka uppsölumeðal af ótta fyrir barnaveikinni, og liggja niðri í rumi. Vóru hin bornin einnig lasin. [...]

31. ágúst 1860

Norðan kulda gola. Eg sat við skriftir var hálflasin af kvefi. Sigga var í vinnu hjá amtmanni. Börn mín Armann og Sigríður eru mjög lasin með kvefi, hæsi og þýngslum og er eg mjög hræddur um barnaveiki í þeim, og órór í sinni.

2. september 1860

Norðan þoku belgingur. Messað. Eg sat inni til að verja mínum vesælu börnum útgaungu, lét Sigríði litlu liggja í rúminu og drekka sikurvatn og gaf Ármanni lakrits. Mikill gestagangur og troðningur af fólki hjá mér, Grímur í Reykhusum með unnustu sína, P. Magnusson og fl. Litlu skjöldu haldið í Auðbrekku. Eg borgaði Magnusi þar 1rd 6s í nautstolla. Eg fékk frá Hannesi 54 fjórð. 4ʉ af lánsheyi. Borgaði Bjarna í Dunhagakoti fyrir svarðarvinnu 56s. Tómas Davíðsson kom um kvöldið til mín í kaupavinnu.

3. september 1860

Logn og þokufullt lopt með uða jeljum. Eg sat við skriftir, reið fyrir amtm. að Lóni, sló nokkrar spírur við garð minn. Bundið var hjá Amtm og Hannesi. Eg léði honum Tómas fyrir mann á morgun, og grána minn. Helga fór útí Reistará að vinna þar 2 daga fyrir mannslán 1 dag áður. Börnum mínum Armanni og Sigríði sýnist heldur vera léttara í dag.

4. september 1860

Sunnan vindur og þurkur. Eg sat við að semja Reikningságrip yfir allan fjárkláðamalskostnaðinn, fóru því börn mín út í dag og fékk Armann ógurlega hæsi og hósta og Jón og Sigríður líka en Björg er frísk. Tómas sló fyrir mig í Akramýri ónýtan bithaga, fékk eg því loforð um slæju í Bugum hvar amtmanns fólk var gengið frá, óð berfættur um mýrina og bugana til að skoða það. Helga vann á Reistará. Amtm. let binda allt hey af engi sínu.

5. september 1860

Sunnan vindur. Við kona mín vöktum í alla nótt yfir Armanni litla sem ekki hafði nokkra ró fyrir hæsi hósta og andþrengslum. Var eg mjög hræddur um að þetta væri barnaveiki og gaf eg honum uppsölumeðal Finsens, en varð að öðru leyti að sitja við skriftir. Helga kom frá Reistará. Hannes og Tómas slóu í Bugum fyrir mig en stúlkur rökuðu.

6. september 1860

Norðan kulda stormur með hrakviðri framanaf. I gærkvöldi versnaði Armanni hæsin og andþrengslin svo við k.m. vöktum yfir honum alla nóttina; gaf eg honum hvað eptir annað uppsölumeðal frá kl. 3 f.m. Kl. 5 sendi eg Tómas kaupamann minn eptir Finsen læknir, komu þeir kl. 12 um daginn og hafði Finsen margskonar meðöl og sat hér allan daginn og sagði fyrir um brúkun þeirra. Vóru þessi meðöl stöðugt viðhöfð, hvað eptir annað og til skiptir:

Bláleitt uppsöluvatn

Morkurial salve framaná hálsinn

Skamtar af dupti

Stöðugur hafurgrjóna bakstur

með fleyru.

Seinast verkaði uppsölumeðalið ekkert og ráðlagði Finsen mér seinast að láta drenginn ofaní heitt bað upp að höku um 1 korter var það gert og hafði það einga verkun. Um kvöldið for læknirinn og Tomas með honum borgaði eg 4rd fyrir ferðina. Eg sat yfir Armanni og var hann þrátt fyrir fyrir kvalirnar og ákefð veikinnar, jafn hugrekkur, þægur og greindur við að eiga með allar meðala tilraunir. Kona mín fekk að sofa í amtmannshúsinu en við Helga tókustum á hendur að vaka yfir Armanni. Sigríður litla og Jón litli eru nú einnig lasin, hún með barnaveikis einkennum og vóru þeim gefin uppsölumeðöl.

Heyinu og slætti ekkert sinnt hjá mer.

7. september 1860

Norðan kulda stormur hvass með úrkomu snjóaði mikið í fjöllum. I nótt vöktum við Helga yfir Ármanni og heldum áfram með meðölin. Andþrengslin fóru vaxandi og urðum við að sitja með hann á mis; þægðin, vitið, fjörið, greindin í tali og full ræna hélst einlægt við. Um nóttina fékk hann svartan og þunnan niðurgang af meðölunum. Kl. 5 fór málið að þverra og sogið að snúast í hrigla, og klappaði hann mér samt, og þekkti mig vel, uns hann kl. 5 ¼ f.m. sloknaði sem ljós í fanginu á Helgu, og misti eg þannig mína sætustu von og alla gleði héðanaf, því Armann var það kærasta og elskulegasta er eg átti í heiminum, og er mér missir hans það sár sem aldrei grær í þessu lífi, sú und sem aldrei hættir að blæða hér í heimi.

Hann var fæddur 11. Oct. 1855 og vantaði þannig 35 daga til að vera 5 ára. Ó það elskulega barn, sem aldrei hafði sýnt mér óhlýðni í hinu minnsta atviki, en var framúrskarandi elskur að mér, og sem aldrei hugsaði um annað meira, enn að gjöra mér eitthvað til gleði og og ánægju. Hann var frábær og fjörugur vel, hljóp 40 vikna gamall, vel greindur og eptir geði mínu í öllu. 2 seinustu árin var eg hræddur um að búa væri um sig meinsemd í honum fyrir Bringsbölum.

Strax og hann var látin sókti eg konu mína og bjuggum við um líkið á stól; um kvöldið fékk eg Jónas á Hallgilsstöðum ásamt Tómasi kaupam. mínum til að bera fram líkið, og var sungið 2 seinustu vers af N° 220 í salmabókinni. Var líkið lagt á fjöl á hefilbekk minn í skemmu minni. Eg skr. BT Lárusar í Brekku um að smíða kistuna.

Þareð Sigríður litla einnig er orðin veik, var meðalabrúkun byrjuð við hana, og tókustum við Helga á hendur að vaka yfir henni í nótt komandi, en k.m. fékk að sofa í múrhusinu. Nú er stöðugt lagt í kakalofn minn og hitinn 16-20° R. Eingin gat sinnt heyverkum hjá mér.

Þareð eingin mun verða til að halda á lopt minningu míns framliðna elskaða Armanns, mun eg skrifa æfisogu hans sem nákvæmasta og sannasta eg get í sérstaka bók; sem eg opt hefi léð honum að leika sér að.

8. september 1860

Norðan kulda gola. Við Helga höfum vakað yfir Sigríði litlu í nótt, og fékk hún mikið sog, gaf eg henni uppsölu meðalið m. fl. og létti henni þá nokkuð og fékk uppgang en hafði Feber og hofuðverk. Um daginn gat eg lítið sem ekkert sofnað en ætla þó að vaka með Helgu í nótt yfir Sigríði.

9. september 1860

Hafgola og sólskin. Messað. Við Helga höfum vakað yfir Sigríði fékk hun hvínandi sog, gaf eg henni uppsölumeðal kl. 3, létti henni ögn við það. Eg skrifaði kl. 2 f.m. B.T. Finsens og sendi Sigurð hér eptir honum í dögun með 3 hesta til reiðar kom Finsen kl. 10 og var hjá mér til kvölds, reyndi öll meðöl hafði með sér Pétur Möller til að assistera sig, ef hann eptir beiðni minni reyndi að opna barkann á Sigríði litlu; en þareð henni nú var léttara hætti hann því áformi, og áleit að Barnaveikin væri nú umliðin, samt brendi hann hana með spanskflugum á allt bakið. Fór Finsen um kvöldið og borgaði eg honum 4 rdl. en P. Möller þáði ekkert Tómasi borgaði eg 4 rdl uppí kaup hans.

Gráni minn uppgafst á þessum reiðum, og varð frá brúkun, hafði Sigurður seinast nýðst á honum.

10. september 1860

Hafgola og sólskin. Við Helga höfum vakað yfir Sigríði litlu í nott, hafði hún mikin uppgang og var nokkuð rólegri við að eiga því hún þoldi ekki að róla sér vegna brunasársins á bakinu. I dag fékk hún hitakast, hofuðverk og ohreina lúngu. Reið eg því að Hofi og fékk þar 6 skamta fyrir 2m gaf henni einn; um kvoldið minkaði uppgangurinn og þyngdi henni þá mjög bað innilega til guðs og bjóst við dauða sínum sem hún þráði og hlakkaði til. Björg á Lóni var um nottina.

11. september 1860

Logn og loða veður. Við Helga höfum enn næstliðna nótt enn vakað yfir Sigríði litlu, og var hún nú mjög aum með ógnarlegum andþreingslum, þrátt fyrir rækilega brúkun allra þeirra meðala sem Finsen hefir fyrirskrifað; Bað hún okkur Helgu að sitja með sig á mis, bað fyrir sér og óskaði sárt eptir dauða sínum og að losast við þjáningarnar. I dag sofnaði eg alls ekkert, en sat yfir Sigríði.

Amtm. sendi eptir Finsen lækni af ótta um veiki í börnum sínum, kom hann um háttatíma, og var þá Sigríður komin aðfram og réði sér ekki fyrir sogi og andþrengslum. Bauð Finsen mér að operera hana á hálsinum og sendi eg í því skini eptir Olafi á Hofi til að aðstoða Finsen, en þegar Olafur kom í hlaðið kl.11 skildi hún við í fanginu á Helgu. Nokkrum mínútum fyrir andlátið sagði hún að sér væri nú léttara, og rétt þareptir segir hún við mig: “Pabbi minn, nú ætla eg að fara að deyja„ var hún þá brosandi og hýr í bragði, bauð eg henni að drekka, og sagði hún “nei„ og hneigði í því höfuðið og gaf upp andann, hélt þetta síðasta bros sér á líkinu, enda hafði hún ætíð verið mjög hýr á svip, og greindarleg, og sýndist vera efni í væna og flinka stúlku. Hún var vel gáfuð, las vel og búin að læra fræðin og margt fl. ; hún var sérlega gefin fyrir söng, og kunni fjölda laga og hafði líka beztu hljóð. Að hreinlætis tilfinningu hennar dáðist eg, og var hún móður sinni á við trúa vinnustúlku í því sem hún orkaði að gjöra innan húss einkum í að hreinsa og fága, og var hún í því fremri enn stúlkurnar.

Það var því nýtt sár, ný und fyrir okkur foreldra hennar að missa hana. Hún var fædd 15 Febrúar 1853, og þannig 7 ½ ára gömul.

Til þess að glata ekki minningu þessarar sárt syrgðu dóttur minnar mun eg reyna að rita æfisogu hennar í sérstaka bók asamt æfisögu Armanns sál.

Við Helga ætlum að vaka yfir líkinu í nótt og er nú búið að leggja það á Lenestól minn. Kona mín hefir allar þessar nætur sofið í múrshúsinu af því hún er vanfær og gat ekki horft á veikindi og dauða barnanna.

Eg borgaði Olafi á Hofi 1rdl fyrir hérkomuna.

Ársgamalt barn sem Hannes hér á er nú orðið veikt af sömu veiki.

12. september 1860

Norðan heljar kulda stormur. Eg fékk Jónas á Hallgilsstoöðum og Hannes hér að bera fram líkið í skemmu mína, og var sungið N° 219 í messusaungsbókinni, reið eg svo að brekku og pantaði líkkistu, svo að Osi og Lóni, pantaði líkræðu og áformaði að jarðsetja á laugard. kemur pantaði 4 líkmenn og 4 grafarmenn. Eg er nú ráðalaus af peningaleysi og fæ hvergi lán. Eg reið að Dunhaga, fékk kynd hjá Guðmundi, setti upp nokkra innri glugga hjá Amtmanni. Magnus í Sponsgerði sókti Líkkistu Armanns sál. að Brekku (það kostaði 16s)

Barni Hannesar gefin homóopathísk meðöl í dag.

13. september 1860

Logn og gott veður. [...] Eg helt heim um kvöldið. Barn Hannesar var þá dáið úr barnaveikinni.

Tómas sem alltaf hefir verið hjá mér í kaupavinnu en, lítið getað aðhafst við heyvinnu fyrir ýmsu aðkalli og sendiferðum, batt í dag með Þorsteini hér og Magn. í Sponsg hey mitt heim úr bugum og Akramýri 19 hesta sem látið var ofaná kúahey mitt. [...]

14. september 1860

Hafgola og sólskin. Eg var að undirbúa ýmislegt til greptrunar á morgun. Við k.m. bjuggum um lík míns elskaða Armanns í kistunni. Sra Einar í Saurbæ var hér. Briem fór héðan vestur. Eg sendi korn að Reistará til mölunar lét kaupa.

Salvíuthee … „ 10s

Svamp …….. „ 32s

Kýrnar höfðu gengið yfir garð Hannesar inní minn garð og eyðilagt hann. Var því tekið allt upp úr honum 1¼ Tunna kartöplur og 1 Tunna af Róum.

15. september 1860

Logn og gott veður. Eg fekk frá Lárusi í Brekku líkkistu handa Sigríði sál. og bjuggum við k.m. um líkið. Þvínæst kom

Sra Þórður og likmennirnir

nefnil. Jóhann á Reistará

Guðmundur í Dunhaga

Jónas á Hallgilsstöðum

og Tómas Daviðsson

samt grafarmenn:

Þorsteinn hér

Sigurður í Dunhaga

Jón á Þrastarholi

og Björn á Nunnuhól.

Vóru líkin bæði borin í kirkju og helt Sra Þórður líkræðu. Vóru svo börn mín jarðsett sunnanvið leiði móður minnar sál. þannig að Armann var lagður rétt við hlið moður m. sál. og Sigríður sál við hlið Armanns.

Veitti eg svo líkmonnum og grafarmonnum mat, kaffe, vín og brennivin, og var hér einnig viðstodd Björg Guðmundsdóttir.

Eg borgaði

Birni á Nunnuhól 1rd

Sigurði í Dunhaga 1rd

Jóni á Þrastarholi 1 16s

16. september 1860

Norðan gola með rigningu, messað. Eg fór ekki í kirkju, flutti rúm ofan af lopti en upp aptur pult mitt og bókaskáp og fl. og fóru bornin að sofa niðri. Amtm. reið í kaupstað. Skolapiltar fóru suður. Sigga hér reið út að Brattavöllum.

17. september 1860

Norðan krapahríð, snjóaði mjög á fjöll; gaungur byrjaðar. Eg sló upp innri glugga á kontori og víðar, var fullur saknaðar og sorgar. Lagt fyrst í ofna í múrhúsinu.

21. september 1860

Norðan stormur með húðar rigning. Eg skrifaði reið svo með Amtm. að Lóni drukkum þar forum svo drukknir að Osi, og reið þá Johann á Reistará þaðan með okkur heim. Eg bað Sra Þorð um líkræðu, fékk demant, pantaði hákarl og klafa efni. Stulkur tóku upp úr garði mínum við bæ. Amtm. lét hætta að slá aðrir ekki.

22. september 1860

Norðan hrakviðri. Eg umfærði í KB var hálflasin eptir drykkjuskapinn í gær. Stúlkur tóku hið seinasta upp úr garði mínum við bæinn sem alls varð 4½ tunn af kartöplum fyrir utan nokkuð af káli og róumm. Eg fékk 13ʉ hákarls frá Gæsum.

23. september 1860 - Fædd Armannía Sigríður

Logn og úrkomulaust veður. Messað og fermdur Eyólfur úr Grimsey sem komin er yfir tvítugt. Eg sendi Þorstein her um apturbirtingu eptir Guðnýu yfirsetukonu í Auðbrekku til að sitja yfir k.m. sem í morgun kendi léttasóttar; fæddi k.m. kl. 5 um daginn meybarn fríðt og efnilegt að sjá. Settist Guðný hér að fyrst um tíma. Eg fékk líkræðuna eptir börn mín hjá Sra Þórði.

25. september 1860

Sama veður. Kona mín hressist en barnið er ekki frítt við hæsi. Guðný var hér. Eg gerði í kringum hey mitt að öllu leiti og innf. í KB. Friðbjörg gamla frá Vogum tengdamóðir mín kom og settist upp til að vera hér í vetur. Gunnar Pálsson kom að norðan og sagði óttalega mikin barnadauða úr barnaveikinni. Eg skrifaði með honum BT Einars á Reinistað um svar uppá bréf mitt í sumar.

27. september 1860

Suðvestan vindur með skúrum. Sigga vann hjá amtm. við heyþurk. Eg skrifaði prívat bréf Amtm. og fl. með haustskipum sem nú eru að fara, smíðaði og setti stromp í baðstofu part minn. Kartöpplur mínar bornar út, þurkaðar og bar eg þær svo inn aptur. Eg lét kaupa 1¼ pott Brennivin 25s. Guðný var hér. K.m. og barnið frískt og var reynt að koma því á brjóst.

28. september 1860

Sunnan vindur. Amtm. lét binda allt hey sitt 132 hesta af Hólma og hlóðum við Guðm. Halldórsson því um daginn. Guðný var hér. K.m. og barnið frískt nema hvað barnið hefir hæsi.

1. október 1860

Suðvestan ofsa stormur með krapa skúrum. [...] Riðum við Grímur um háttatima úr kaupstaðnum út hingað um nóttina í vesta veðri og gisti Grímur hjá mér. K.m. var nú orðin lasin af sinni gömlu vesöld (Hviðsfloð[?]) og allskonar eymd. og barnið einnig vesælt af hæsi, munnsviða og fl. Guðný yfirsetukona hefir verið hér þessa daga. Þorsteinn hefir bjástrað að útheyi mínu. Sigga vann hjá Amtm. í dag. Eg týndi stórum gullhríng af fingrinum, og leituðum við grímur forgefins að honum.

4. október 1860

Sunnan vindur. K.m. mjög lasin og barnið veikt af hægðarleysi og munnsviða. Eg skrifaði BT Finsens um meðöl og BT P. Magnússonar. Eg hreinsaði ofn minn og var á kontóri. Nú er heimilishagur minn bágur. Þorsteinn þakti leiði barna minna og gjörði við fjósbása mina.

Sigga vann hjá amtm. hann lét flytja svörð heim í dag.

Eg hefi núna þessa daga borgað og keypt

2 líkkistur … 11 - „

Fyrir mannslán og hestlán frá Hallgilsst. … 1 - 48

Fyr hestlán frá Nunnuh. … „ 64

Tómasi fyrir 11 daga … 9 -16

Fyrir Castor … 1 - „

Þinggjald … „ 87

= 24rd 23s

4 Potta Brvín. gæsum … „ 80s

I Fundarlaun á gullhríng … 2 - „

5. október 1860

Sunnan gola gott og bjart veður. Eg sat við skriftir. Eg fékk Þorstein hér, Lopt á Hallgilst. og Guðjón í Sponsg. til þess með stúlkum mínum að flytja heim svorð minn utan af holti á 5 hestum, komst það af og varð hann 63 hestar en c. 12 hestar áður fluttir = 75 h. Guðný var sókt frá Brakanda og vöktu því stúlkur yfir barninu veiku og hljóðlausu af hæsi um nóttina. K.m. mjög veik. Eg fékk BF Finsen og meðöl handa konu minni og barninu borgaði Recept með 24s.

6. október 1860 - Eldadagr. Friðr. VII. fæddr

Norðan hríðar veður alhvítt af snjó. I nótt gat eingin sofnað hjá mér fyrir hljóðum og veinun unga barnsins sem stulkur gengu með um gólf var k.m. mikið veik. Eg reið að Lóni fékk Björgu til að vera hér til að hyrða um barnið og varð að útvega Magnús í Spónsgerði í hennar stað í dag. Reið eg svo að Osi og fékk prest til að skýra barn mitt, voru guðfeðgin Jónas á Hallgilsst. Þorst. hér og Björg og var barnið skýrt Armannía Sigríður. Þegar Björg fór að skoða barnið var það mjög ílla hyrt með sárum undir höndum og víðar skánaði því við betri hyrðingu, en hefir þó magapínu eptir ílla hreinsun og er slíkt kennt yfirsetukonunni.

Olafur í Hraungerði kom með 4 kindur færði mér 1 Pott Brvín gaf eg honum uppbot á kindurnar rúma 2rd, líka fékk hann mer 12ʉ af smjöri og 18ʉ af tólg uppi gjöld sín. [...]

7. október 1860

Norðvestan snjóburðar hríð og kafald þegar áleið. Messað að eins. Kona m. var lítið eitt skárri og barnið líka. Björg var hér. Eg tók til í Skatholi mínu og víðar. Þorsteinn byrjaði að taka kúahey mitt. Eg borg. Bjarna í Dunhkoti 24s.

8. október 1860

Norðvestan kafaldshríð komin fönn. I nott vakti eg og k.m. að mestu leyti af hljóðum og veini í Armanníu Sigríði sem nú er veik og hefir sár undir baðum höndum af óþrifa meðferð yfirsetukonunnar, hefir Björg fyrir henni. K.m. er mjög lasin. Eg lét Siggu fara útí Lón í stað Bjargar. Eg sat við skriftir á kontórinu Jón Mýrdal kom hér og sagði okkur sögur. Nú er lækurinn hér af og kyr nærri vatnslausar.

10. október 1860

Sunnan frostgola og heiðríkt c. 12° frost. Eg var að afskrifa i Journal og kom kartöplum mínum niður í gröf tók til í skemmu minni. Þorsteinn lauk við að höggva niður kjöt mitt og er enn rúmt kvartils borð á uxahöfuð mitt, en 10 lær og 10 bríngukollar hengdir upp og nokkrar Rullupilsur. Eg fékk Þorsteini 1 tunnu af kartöplum. Björg vakir stöðugt yfir Armanníu sem mér virðist dragast með dauðann. K.m. einnig veik.

11. október 1860 - 5ti afmælisdagur Armanns sáluga

Sunnan gola heiðríkt og frost 8°. [...] K.m. liggur með allskonar eymd á sál og líkama. Ármannía Sigríður er alltaf veik og nú orðin hljóðlaus af hæsi, eru henni stöðugt gefin meðöl af ýmsu tægi t.a.m.

Barnapulver, Rahbarbara-Hoffmannsdropar, Laxerolia, stolpípa með Laudanum, tvennslags munnbólumeðal, Bomolia, glycerin etc.

Fyrst var hún nærð á Sikurvatni svo mjólkurblöndu, og brjóstinu lítið eitt, svo misu svo aptur á sikurvatni og nú í dag á mjólkurblöndu. Benid. Blöndal og Jón Palmason gistu hjá amtm.

12. október 1860

Drífa um morgunin svo logn og frostlaust góðviðri. Eg afskrifaði i Journal m.fl., setti innri glugga uppi á lopti mínu og gerði að Grindahjallshurð. K.m. liggur í sinni óskiljanlegu veiki. Armanníu lakast meir og meir og er hljóðlaus af hæsi. Sárið undir annari hendinni vill ekki gróa og kvelst hún einnig af því. Barn þetta er samt þrátt fyrir allar sjúkdóms þrautir svo fagurt og elskulegt að eg ekki hefi annað jafnfríðt séð.

14. október 1860

Norðan gola þoka í lopti, messað og fólk til altaris. Um morgunin snemma varð eg þess vís að Armannia Sigriður litla var búin að taka barnaveikina; byrjaði eg því til reynslu að gefa henni homöopathísk meðöl og sat við það allan daginn, var hún róleg og virtist ekki að hafa neinar sérlegar þjáningar, drakk mjólkurblondu með lyst, gaf eg henni inn til kvolds. K.m. liggur með sama moti. Björg G. helt áfram að vera hér þessa viku og fór því Sigga í hennar stað aptur út að Loni. Austan póstur kom um kvoldið og Jón vaktari með bréf að sunnan.

15. október 1860

Norðvestan ofsa veður með krapa hríð varla útkomandi. Baromether í “ubestemt„. Snemma kom eg upp til Ármanníu, sem var róleg í nótt nema hvað hún fékk nokkur andköf sýndist hún þjáningarlaus að undanteknum andþrengslunum. Hún blíndi á mig dökkbláum augum, þeim fegurstu augum er eg nokkurn tíma hefi séð og sem eg ekki mun gleima, einsog líka andlit hennar var svo slétt og fríðt að það líktist fremur eingli enn manni. Varaði þetta nokkra stund, þangað til hún lukti augunum og - dó.

Hún var hið fríðasta og efnilegasta ungbarn er eg hefi séð, og hafði eg þegar gjört mér von um að hun mundi verða mér til huggunar eptir missi hinna eldri barna minna; hinn sami eingla svipur hvildi yfir henni framliðinni; vona eg að systkini hennar hafi nú fagnað anda hennar í eilífðarinnar bústöðum og að Sigríður sál. systir hennar hafi nú fengið þá af henni eptirþráðu ósk að bera hana á skauti sínu.

Líkið bjuggum við um uppá loptinu, og varð eg síðan að sitja við skriftir á contórinu fram á nótt. I húminu fékk eg Jonas á Hallgst. og Þorstein hér að bera fram líkið var sungið N° [hér vantar sálmanúmer] í salmabokinni. BT Lárusar um líkkistu.

16. október 1860

Norðan gola og frost með litlu fjúki. Eg sat stöðugt við skriftir. K.m. liggur með sömu eymdinni. Eg skrifaði B.T. Stepháns í Skjaldarvík, bað um fisk og B.T. Sra Þorðar um greptrun barnsins. Amtm. reið að Osi. Siggi fór í kaupstað, keypti fyrir mig 2 pott brennivín 40s. Eg fekk B.F. Guðmann, svar uppá bréf mitt til hans, neitun um forþénustu mjög höfligt.

18. október 1860

Bjartviðri sólskin og frost. Eg sat við skriftir, k.m. liggur, finnst sér skána. Eg fékk líkkisti frá Lárusi fyrir 4rdl. kistulagði með aðstoð Bjargar.

21. október 1860

Blíðviðri, frostlaust, kjurt og bjart. Eg fékk Þorstein, Sigfús og Sigurð hér að taka gröf; byrjuðu þeir í dögun og luku snemma við, eptir það kom Sra Þórður, Guðm. í Dunhaga og Jonas á Hallgilsst. báru þeir lík Armanníu sál. til kirkju og var fyrst sungið:

“Hvorsu gleðin hvarf mér í skindi„

svo: “Mín gæfa byggð á guðs náð er„

svo: “Allt eins og blómstrið eina„

og “Sofi hún nú hér í friði.„

Var líkið jarðsett við hliðina á Sigríði sál systir hennar.

Eg tracteraði þá sem að greptruninni stóðu með kaffe, pönnukökum, brennivini, Cognac etc.

Sra Gunnar í Höfða messaði hér í dag og var Sra Þórður til alltaris. Eg fór í kirkju.

Amtmaður fékk mér 10rd

[...] K.m. fór fyrst ögn að reyna að standa í fæturna.

 

Orðskýringar:

BF: Bréf frá

BT: Bréf til

Rbd/rd: Ríksibankadalir/ríkisdalir

m.: Merkur

s.: Skildingar

d.: Dagsett

k.m.: Kona mín

sál.: Sálugi/a

KB: Kirkjubók?

f.m.: Fyrir miðdegi

N°: Númer