Fara í efni
Menning

Fyrsti dagur sumars í dagbókum Sveins

Í dag birtist 25. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk sl. sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur reglulega síðan. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Gefum Unu orðið:
_ _ _

Sumardagur fyrsti

Sumardagurinn fyrsti hefur frá fornu fari verið hátíðardagur á Íslandi. Líklega var eitt sinn litið á hann sem fyrsta dag ársins en lengi var árinu skipt í vetrar- og sumarmisseri. Sumarmisserið byrjaði alltaf á fimmtudegi á tímabilinu 9.-15. apríl fram til 18. aldar en svo á bilinu 19.-25. apríl líkt og tíðkast enn í dag. Sumargjafir eru jafnframt mun eldri siður á Íslandi en jólagjafir og fólk skiptist á þeim í að minnsta kosti fjórar aldir áður en jólagjafir fóru að tíðkast. Mikilvægi sumardagsins fyrsta sést nokkuð vel í dagbókum Sveins Þórarinssonar en hann merkti til dæmis alltaf daginn í spássíu dagbókanna. Afmælisdagar og aðrir hátíðardagar voru oftast merktir svoleiðis inn en alls ekki alltaf. Þau fáu skipti sem hann skrifaði ekkert í dagbók sína á sumardaginn fyrsta voru til dæmis 1856, en þá skrifaði hann að hann hefði ekki tíma til að skrifa, og 1857 þegar hann skrifaði ekkert nema „Sumard. fyrsti“. Loks er búið að rífa blaðsíðuna með sumardeginum fyrsta árið 1854. Fyrir utan þessi þrjú ár hef ég hér tekið saman sumardaginn fyrsta í dagbókum Sveins frá 1849 til 1869.

19. apríl 1849 - Harpa, Gaukm. eðr. Sáðtíð byrjar. Sumard. fyrsti

Sunnan frostgola, klökknaði ekkert af sól. Eg skrifaði registrið, og ímislegt fyrir mig. Allir héldu heilagt með yðjuleysi. Ekkert haft til skémtunar. Havstein var með öðru fólki við greptrun prófastsmadömunnar í Vallanesi í dag. Hallgrímur prófastur á Hólmum var her um nóttina.

25. apríl 1850 - Harpa, Sumard fyrsti

Sunnan gola og sólskin. Eg var vesæll mjög fólk barði her á velli allann dag, ekkert haft til skémtunar. Kosníngarfundur til reynslu var haldin í dag í Bót, fjölmennur flest atkvæði feingu Sra Sigurður á Desjarm. og Guttormur á Arnheiðarstoðum.

24. apríl 1851 - Harpa, Sumard. fyrsti

Sunnan gola sólskin og blíðviðri. Amtmaður fór inní kaupstað og fóru prestarnir með honum, Þórun litla dóttur hans var flutt héðan alfarin inn til Johnsens læknir og for Sigurjóna Laxdahl alfarin með henni. Eg var um daginn að taka í burtu innri gluggana hér í húsinu og ýmislegt að taka til hyrðíngar hér var þvegið í húsinu verelsi um daginn.

22. apríl 1852 - Sumardagur fyrsti, Harpa byrjar

Sama veður Eg var að pakka niður. Danielsen kom með 2 báta sem sóktu af flutníngi amtm. og mínum og fór eg með þeim um kvöldið sjóleið að Gjæsum, gékk þaðan að Skipalóni og var þar um nóttina. Danielsen er að smíða þiljubát í Gjæsa nausti, þann fyrsta í Norðuramti.

21. apríl 1853 - Sumardagur fyrsti

Sunnan gola og blíðviðri. Eg var að innfæra í k.b. og ímislegt að taka til. Eg gékk með Lárusi og Jacob fram að Litladunhaga. Nú eru hvergi vínfaung og víða kaffelaust og þykir mönnum það þurlegt á þessum degi. Eg skrifaði BT Briems með acti sem kom að vestan. Dóttur mín var fyrst klædd.

19. apríl 1855 - Sumardagur fyrsti

Norðan frostgola og bjartviðri. Eg var heima og skémti mér sem best ég gaf og veitti vínfaung þau sem ég hafði. Amtmaður gaf Sigríði dottur minni lítinn fallegann stól í sumargjöf og Guðmundur vinnum. hans gaf mér góðan “Atlas„. Annars var lítið um dýrðir og ekkert skemtilegt.

22. apríl 1858 - Sumardagur fyrsti, Harpa

Sunnan ofsa veður með rigning að öðru hverju. Við Jón sátum við skriftir á Kontórinu og var Sunnan póstur nl. Grímur Magnusson afgreiddur suður. Ýmsir vóru að gefast á sumargjafir. Amtm. gaf mer brennivínsflösku sem eg tracteraði m.m. með, og höfðum við einnig nóg sælgæti í mat. Við Jón drukkum hjá amtmanni nægð af romi og Toddy. Eg skr. BT Sra M. í Múla sendi honum form til ansögningar um Vígslubréf, og let hann vita að Blaketterne væru for Tiðen ekki til; Km. sendi fram að Vöglum eptir hring. BF B. Jonssyni.

21. apríl 1859 - Harpa, Sumard. fyrsti, Skýrdagur

Sunnan frostgola sólskin og bjart. messað. Eg var í kirkju. Um ekkert annað heyrist nú talað enn harðindi heljur og dauða. K.m. gaf mér peníngabuddu í sumargjöf heklaða. Ekkert haft til Skemtunar og heldur dauflegt. Veiga litla var hér nóttina.

19. apríl 1860 - Sumardagur fyrsti, Harpa

Logn og blíðviðri. Eg sat við skriftir allann dag; eingar sumargjafir; eingin skemtun síst fyrir mig. Amtmaður fékk mér uppí kaup 20rd. Eg fékk k.m. þaraf 2rd Björgu 1rd.

25. apríl 1861 - Sumardagur fyrsti

Suðvestan kulda gola. Eg skrifaði fyrst nokkur embættisbréf og privat bréf fyrir amtmann bjó svo um allar Expeditionir með báðum póstum og afgreiddi þá báða um sólsetur suður og austur gat eingum skrifað nema 3 línur Þórarni bróður mínum, varð svo að lesa hjá amtm. fram í mirkur hann gaf mér brennivín á eina flösku, var hann mest allan dag útá bæum. Eg hefi varla keppst meira við nokkurn dag á æfi minni en þenna.

24. apríl 1862 - Sumardagur fyrsti

Sama veður. Eg sat við jafnaðarsjóðsreiknínginn og fl. Ekkert var hér haft til skemtunar. Eg borðaði með Amtm. og gestum hans [?] odgu enma igelu-yldiggo orfi igmu [[?] god men ligegyldig for mig]. Þeir veiku hér eru smámsaman en seint og hægt að hjarna. Nú er fremur hörð tíð og víða heyleysi og matarskortur. Matbjörg mín er nú.

1 Tunna af Rúg

¾ tunna saltkjöt

½ –//– af grjonum

2 Skeppur af grjónamjöli

3 Skeppur af Rúgmjöli

20 spirðubond af smáfiski

12 Saltfiskar

6 fjórð. af hörðum fiski

2 Skeppur af Baunum

nokkur þorskhöfuð

½ tunna af skiri

1 ½ tunna af kartöplum

10 merkur mjólkur í mat[?]

handa 7 manns

 

22. apríl–9. maí 1863 - Sumardagur fyrsti - Kongsbænadagur

Á tímabilinu fra 22 Apríl til 9. Maí hefir veðrátta verið hörð og köld, ísin í nánd og hörkur nógar. Almennt heyleysi fyrir kýr og fé, og hljómar sú barlómstrumba daglega. Eg varð að taka og bjarga kugildum frá Hamri kú og 6 ám. og frúnni lánaði eg 8 hesta af heyi og gaf Þorláki einn hest. Hákarla skip hafa fengið hrakninga og sum farist. Gunnlaugur á Lóni braut jagt sína við Langanes og misti 2 menn um leið.

Eg hefi heila tíman verið veikur að öðru hverju legið með mestu þjáningum og ekkert getað aðhafst. Eg lét sækja Finsen sem nú áleit tiltækilegt að brenna mig, og ráðlagði mér að flytja inn á Akureyri sem fyrst. Var því strax farið að undirbúa veru mína þar og saumuð handa mér föt og rúmföt m.fl. Kona mín reið inneptir og útvegaði og undirbjó húsnæði handa mér og aðhjúkrun í húsi Jón Stephánssonar og Þorgerðar, en bæði var eg ekki flutningsfær sökum veikinda, og svo var veðrið alla jafna ófært fyrir mig. Eg hefi í vetur í veikindum mínum látið amtskontórið sitja fyrir með hvað eg hef getað skrifað. Nú þegar eg var orðin öldungis ófær til alls og burtför mín héðan um lengri tíma stendur fyrir hendi afhenti eg hinum setta amtmanni Sýslumanni Thorarensen amtskontórið allt og losaði mig við það. En þareð eg hefi látið mínar eigin sakir verða á hakanum stend eg ekki vel í skyldusporum mínum hvað um boð mín snertir, og hafa einnig veikindin staðið mér þar stórkostlega í vegi.

Nú bíð eg eptir færu veðri til flutnings á mér inn á Akureyri.

21. apríl 1864 - Sumardagr 1.

Logn og Blíðviðri. Eg sat við skriftir og hjá amtmanni og borðaði þar Eggert og fjöldi unglinga héldu félagsfund í Fornhaga. Það lá mjög ílla á mér um daginn (ortbu eisera [bort reise])

20. apríl 1865 - Sumardagur 1.

Sunnan rosa stormur mjög hvass og rigning að öðru hverju. Eg gaf Bjorgu kommoðuna í sumargjöf, Jóni litla skrifstokk nyatestamenti, spil og smávegis Armanni púlt nefnu með smavegis barngullum í, var mikil gleði á ferðum. Eg fékk hjá Jóni lítin pappkassa og blekbyttu og hjá Björgu peningabuddu sem hún hafði heklað. Eg sat við að hreinskrifa og consipera amtsbréf. Sra Þórður sat yfir amtmanni en Eggert var á felagsfundi í Fornhaga.

19. apríl 1866 - Sumardagur fyrsti

Logn og blíðviðri, farið að koma sunnan far í loptið. Eg klæddist litla stund. Finsen vitjaði mín og líka heimsóktu mig Pétur Möller og Friðfinnur gullsmiður en ekki aðrir. Hér í húsi var eingin gleði á ferðum nema hvað bornin vóru að gefa hvort öðru og móður sinni eitthvort glingur í sumargjafir. Eg var að öðru leyti eins og dauður fyrir heiminn og heimurinn dauður fyrir mig.

Annað fólk hér í bænum skemti sér með ymsu móti, en slíkt náði ekki til míns eymda heimkynnis.

25. apríl 1867 - Sumardagur fyrsti

Logn og skýað lopt gott veður en jörð öll eins og hafísjaki. Eg sat allan dag við að concipera bref fyrir amtm. heima hér. Hér var lítið um dýrðir. Börnin hugsuðu um sumargjafir, gaf eg

Boggu silfur signet

Nonna dto með Agatskapti

og handa Boggu Papeteri

Manna Silfur signet með agat skapti og handa Elisabetu skjæri kassa etc,

Friðrik litla hljóðpípu.

Amtmaður kom og Skúli Sveinsson.

Guðmundur var út á Gæsum.

23. apríl 1868 - Sumardagur fyrsti, Harpa

Norðaustan kulda gola. Eg skrifaði fyrir Friðbjörn Steinsson Sveinabréf handa Þorsteini Sigurðssyni, kennslupilti hans í bokbandi, var þar svo í “Sveinagildi„ um kvöldið. Eg var annars hálflasin las “Mediernes Bog„, gekk út í bæ. Ekkert var hér til skemtunar, en margir gengu fullir. Þorlákur frá Grænavatni og fleyri Mývetningar vóru hér á ferð.

22. apríl 1869 - Harpa, Sumard. fyrsti

Sunnan hlýinda gola, tók fjarska mikin snjó og ísin leysti af pollinum nokkuð inn á leyru. I dag var “skólafrí„. Eg lauk við að skrifa útreikningsbókina, og ymisl. fleyra. Jón litli er hér. Eggert Gunnarsson kom hér að norðan og borgaði eg honum fyrir 12al vaðmáls 1 kvartil af skiri og 10ʉ smjörs, er hann hafði sent mér. Um kvöldið var hringt til helgar. Eg fekk að lani “Beboede Verdener„.

 

Orðskýringar

Rd: ríkisdalur

Rbd: ríkisbankadalur

M: mark

S: skildingur

1 ríkisdalur (ríkisbankadalur) = 6 mörk = 96 skildingar

BF: bréf frá

BT: bréf til

m.m.: mamma mín

k.m.: kona mín

Ekt.: Ekki til kirkju

 

Heimild

Árni Björnsson. „Af hverju er sumardagurinn fyrsti haldinn hátíðlegur?“ Vísindavefurinn, 20. apríl 2006. Sótt 28. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5831.