Fara í efni
Menning

Maddie Sutton mögnuð – 50 framlagsstig!

Maddie Sutton var mögnuð í stórsigri Þórs á Njarðvikingum í kvöld; skoraði 18 stig, tók 24 fráköst og átti 17 stoðsendingar. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Maddie Sutton, fyrirliði kvennaliðs Þórs í körfuknattleik, var mögnuð í stórsigri liðsins á Njarðvíkingum í kvöld í efstu deild Íslandsmótsins, Bónusdeildinni. Litlu munaði að hún næði þrefaldri tvennu strax fyrri hálfleiknum og lokatölurnar magnaðar eftir því. Hún skoraði 18 stig, tók 24 fráköst og átti 17 stoðsendingar. Hún endaði með 50 framlagsstig, sem er stórkostleg frammistaða. Fróðir Þórsarar telja að hún hafi mögulega sett félagsmet í stoðsendingum! 

Það segir svo kannski alla söguna að Amandine Toi skuli eiginlega hafa fallið í skuggann af frammistöðunni hjá Maddie því Amandine skoraði 41 stig í leiknum!

Tóku frumkvæðið og héldu því

Þórsstelpurnar náðu góðri forystu strax í fyrsta leikhluta, voru komnar með tíu stiga forskot um hann miðjan og héldu því, leiddu með 11 stigum eftir fyrsta leikhlutann. Þær héldu svo einfaldlega áfram af fullum krafti og um miðjan annan leikhluta var munurinn orðinn 21 stig, 52-31. Forystan 16 stig í leikhléi. Áhugaverðar tölur hjá Maddie Sutton, bara eftir fyrri hálfleikinn var hún næstum komin í þrefalda tvennu eins og áður sagði, hafði skorað átta stig, tekið níu fráköst og átt tíu stoðsendingar. Amandine Toi og Esther Fokke röðuðu niður körfunum, Amandine með 19 stig í fyrri hálfleik og Esther 16. 

Amandine Toi gerði 41 stig fyrir Þór í kvöld.

Það getur verið erfitt að halda einbeitingu út allan leikinn þegar lið er komið með gott forskot, en það voru þá bara örfáar sóknir hjá Þórsliðinu því þær héldu áfram að hamra járnið á meðan það var heitt, héldu góðu forskoti út allan seinni hálfleikinn, unnu þriðja leikhlutann með fjórum stigum og þann fjórða með einu stigi. Sigurinn eiginlega aldrei í hættu frá því snemma í fyrri hálfleik, eins ótrúlegt og það hljómar. Samstillt sóknarlið, frábær stemning í stúkunni og flest gekk upp þó örugglega megi bæta varnarleikinn eitthvað. Munurinn varð að lokum 21 stig þegar leik lauk og allar í liðinu með flotta frammistöðu þótt tölurnar séu misháar eftir leikmönnum.

Amandine Toi var stigahæst í Þórsliðinu með 41 stig, tölurnar hjá Maddie magnaðar eins og áður sagði og Esther Fokke skoraði 20 stig. Brittany Dinkins var langstigahæst í liði gestanna með 41 stig. 

  • Gangur leiksins: Þór - Njarðvík (33-22) (29-24) 62-46 (25-21) (19-18) 106-85
  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton.
  • Staðan í deildinni
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Baráttan í efri hluta deildarinnar jafnaðist nokkuð með leikjum kvöldsins því á meðan Þórsstelpurnar völtuðu yfir Njarðvíkinga, sem eru í 2. sætinu, fékk toppliða Hauka einnig að finna til tevatnsins á Norðurlandinu. Haukar töpuðu á Sauðárkróki, en að vísu án bandaríska leikmannsins síns. Tvö efstu liðin töpuðu því í kvöld, en Keflavík vann Aþenu örugglega í kvöld og er í 2.-3. sæti. Þór og Tindastóll hafa bæði unnið fimm leiki, Keflavík sex, en þar fyrir ofan eru Njarðvík með sex sigra og Haukar með sjö. 

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Amandine Toi 41 - 0 - 0
  • Esther Fokke 20 - 5 - 3
  • Maddie Sutton 18 - 24 - 17 50 framlagsstig!
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 11 - 7 - 2
  • Natalia Lalic 8 - 4 - 2
  • Eva Wium Elíasdóttir 6 - 5 - 5
  • Katrín Eva Óladóttir 2 - 1 - 0

Næsti leikur Þórsliðsins er strax á laugardag, 7. desember, þegar stelpurnar sækja 1. deildar lið ÍR heim i VÍS-bikarkeppninni.

Telja má næsta víst að þær muni mæta ákveðnar til leiks á laugardaginn þótt mótherjarnir séu deild neðar, minnugar bikarævintýrsins á síðasta tímabili.