Fara í efni
Menning

Litla ljóðahátíðin í Davíðshúsi í vikunni

Stofur Davíðshúss fyllast af ljóðum, tónum og fólki á Litlu ljóðahátíðinni í Davíðshúsi sem í þessari viku verður haldin í fjórða sinn á heimili skáldsins frá Fagraskógi. Dagskráin er fjölbreytt sem fyrr með landsþekktu listafólki sem stígur fram á stofugólfið frá fimmtudegi til sunnudags 14.-17. nóvember.

  • Aðgangsmiði á hátíðina kostar 1.500 krónur og gildir alla dagana.
  • Miðinn gildir einnig á Minjasafnið, Nonnahús og Iðnaðarsafnið út árið.
  • Húsið verður alltað opnað hálftíma áður en dagskrá hefst.

_ _ _ _ 

Þorpið – Ljóðaleikur í tali og tónum

FIMMTUDAG KL. 20.00

Hátíðin hefst með dagskrá þar sem bræðurnir Þórarinn og Elfar Logi Hannessynir flytja ljóðaleik úr bók Jóns úr Vör, Þorpið. „Bókin olli straumhvörfum í íslenskri ljóðlist þegar hún kom út árið 1946. Hún var fyrsta ljóðabókin sem innihélt eingöngu óbundin ljóð og varð af nokkuð fjaðrafok. Með tímanum hefur hún unnið sér sess meðal merkustu ljóðabóka landsins,“ segir í tilkynningu frá hátíðinni.
_ _ _ _ 

Gerður Kristný les ljóð

FÖSTUDAG KL 20.00

Gerður Kristný les upp úr nýjustu bók sinni, Jarðljós, sem hlotið hefur frábæra dóma gagnrýnenda og enn betri viðtökur lesenda, segir í kynningu. „Gerði Kristnýju þarf vart að kynna enda löngu landsþekkt og nýtur aðdáunar langt út fyrir landsteinana fyrir orðsnilld sína. Hún hefur notið margs konar viðurkenningar fyrir skrif sín þar með talin Íslensku bókmenntaverðlaunin. Jarðljós er 10. ljóðabók Gerðar Kristnýjar og eflaust verða einhver ljóð úr fyrri bókum með í för á föstudagskvöldið.“
_ _ _ _ 

Jónas, ég og Davíð

LAUGARDAG KL. 15.00

Síðdegis á laugardaginn fær afmælisbarnið Jónas Hallgrímsson rými í stofu Davíðs frá Fagraskógi. Jónas, ég og Davíð er dagskrá á persónulegu nótunum þar sem Vilhjálmur B. Bragason flytur ljóð og hugleiðingar um skáldin stóru sem hafa fylgt honum í gegnum lífið. „Vilhjálmur flytur ljóð Jónasar og Davíðs sem eru honum hugleikin ásamt sínum eigin verkum. Dagskráin, sem hefst kl. 15, er bæði í tali og tónum eins og við er að búast af Vilhjálmi.“
_ _ _ _

Stofutónleikar Alexanders Edelstein

SUNNUDAG KL. 16.00

Litlu ljóðahátíðinni lýkur á nótnaborði flygilins í Davíðshúsi þegar píanóleikarinn Alexander Smári Edelstein flytur verk eftir Bach, Schubert, Chopin og Rachmaninoff.

Alexander lauk prófi frá Tónlistarskólann á Akureyri og BA gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2021. Hann lauk meistaragráðu frá Conservatorium Maastricht í Hollandi árið 2023 undir handleiðslu professor Katiu Veekmans.

Alexander hefur komið fram á fjölda tónleika bæði sem einleikari og með leikari. Hann er nú sjálfstætt starfandi tónlistarmaður og píanókennari við Tónlistarskólann á Akureyri.

„Óþarft er að taka fram að heimilismaðurinn Davíð tekur þátt með upplestri, þó ekki að handan heldur af hljómplötu,“ segir í tilkynningu.