Fara í efni
Menning

Kvöldskatturinn er forn og vinsæll siður

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

13. desember – Kvöldskatturinn

Orðið skattur hefur í huga flestra ekki jákvæða merkingu. Það tíðkast nú eins og þá að gera vel við sig í mat og drykk á jólaföstunni. Að sögn Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili gerðu Eyfirðingar sérstaklega vel við sig í upphafi föstunnar með hinum forna sið að gefa kvöldskattinn.

„Eitthvað kvöldið í upphafi jólaföstunnar fór húsfreyja fram í búr og fór að skammta heimilisfólki sínu á stór föt eða diska allt hið bezta sem búrið átti til; hangiket, magál, sperðil, pottbrauð og flatbrauð og vel við af floti og sméri. Allt fór þetta fram með mestu leynd, og þótti mest til koma, ef enginn vissi neitt, fyrr en ílátin komu inn úr baðstofudyrunum. Var þá rokkum, snældum og prjónum varpað frá sér í snatri og síðan sezt að snæðingi. Ekki þótti ærlega skammtað ef menn gátu étið upp um kvöldið, enda geymdu margir sér af kvöldskattinum í marga daga til þess að fá sér bita við og við. Þar sem margt var vinnufólk gerði það sér og húsbændum sínum þann glaðning, að gefa kvöldskatt líka, lögðu þá oft tveir eða þrír saman til þess að hann gæti orðið sem myndarlegastur, urðu þannig oft margir kvöldskattarnir á sama heimilinu…“

Þessi skattur var líklega sérstaklega ánægjulegur í augum Askasleikis enda ekki víst að heimilisfólkið gæti lokið öllu sem í asknum var.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.