Fara í efni
Menning

Færði MA vatnslitamynd af Gamla skóla að gjöf

Dagný Reykjalín málaði í vetur vatnslitamynd af Gamla skóla, í tilefni þess að í október voru 120 ár síðan það gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Dagný, sem er grafískur hönnuður, færði skólanum frummyndina að gjöf á dögunum, svo og nokkrar eftirprentanir sem verða þar til sölu. Greint er frá þessu á vef MA.
 
Dagný lét á sínum tíma gera 100 eftirprentanir í A4 stærð, númeraðar og áritaðar. Þær eru til sölu og rennur andvirði myndanna óskert í Ugluna, hollvinasjóð MA en hlutverk hans er að styðja við þróun og nýsköpun í skólastarfinu. Myndirnar voru prentaðar á Akureyri á 250g Munken Kristall pappír sem er hágæða umhverfisvænn pappír sem skilar litum og línum einstaklega vel, segir á vef MA.
 

Gamli skóli var reistur sumrið 1904 og tekinn í notkun um haustið. Í október síðastliðnum fjallaði Akureyri.net um tímamótin með því að birta 21 kafla úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri eftir Tryggva Gíslason fyrrverandi skólameistara.

Vatnslitamynd Dagnýjar Reykjalín af Gamla skóla.