Fara í efni
Menning

Dagbækur Sveins XVII – Jólin 1863

Í dag birtist 17. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar en í vetur verða birtar færslur aðra hverja viku. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Gefum Unu orðið:_ _ _

Jólin 1863 bjuggu Sveinn og Sigríður enn hjá Havsteen amtmanni á Möðruvöllum í Hörgárdal. Þá var Bogga 9 ára, Nonni 6 ára og Manni 2 ára en Sveinn minntist ekkert á þau í dagbókarskrifum sínum þessi jól fyrr en í lok færslunnar sem hann skrifaði á gamlársdag þar sem hann taldi upp hversu gamlir allir fjölskyldumeðlimirnir yrðu á komandi ári.

Þann 4. desember hélt amtmaður upp á 2 ára afmæli sonar síns, Hannesar litla Hafstein, en fáir sáu sér fært að mæta. Þeir sem mættu létu það þó ekki á sig fá og drukku til miðnættis. Lítið var um jólagjafir á þessum tíma, heimilisfólk fékk helst nýja flík og skó en ekki var litið á það sem jólagjöf í okkar skilningi. Sveinn skrifaði ekkert um það hvort börn hans hefðu fengið nýja flík og því vitum við ekki hvort þau fengu eitthvað slíkt. Annars var mikið um veisluhald í kringum jólin og lesið, spilað og sungið. Því miður er búið að rífa nokkrar blaðsíður úr dagbókinni og því vantar færslurnar frá 10. til 19. desember og 28. til 30. desember, auk fyrri hluta færslunnar frá gamlársdegi þar sem Sveinn var vanur að skrifa stutt yfirlit yfir árið og hagi sína.

Sérstök jólasýning opnar í dag, laugardag, í Nonnahúsi þar sem gestir geta fengið að lesa fleiri jólafærslur úr dagbókum Sveins.

29. nóvember 1863 - Aðventa 1 S. í Jólaföstu

Sunnan frostgola. Ekki messað. Eg skrifaði smavegis fyrir mig. Benidikt Björnsson frændi minn kom að norðan, gisti hjá mér, saung og spilaði á Harmoniku fyrir marga um kvöldið. Amtm reið að Lóni.

30. nóvember 1863

Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg sat við ymsar skriptir. Skjóni minn tekin á gjöf. Benidikt var um kjurt hjá mér.

December eður skammdegism. 1863

1. desember 1863

Norðan dimm snjómoksturs hríð kom mikil fönn. Eg skrifaði ýmislegt fyrir amtið og kláraði bækur mínar svo þær voru à jour. Benidikt var um kjurt, saung og spilaði og skrifaði lítið eitt fyrir mig.

2. desember 1863

Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg kláraði ýmsar bækur amtsins svo þær nú eru à jour. Benidikt fór. Guðm skrifari fekk snert af blóðuppgangi reið að Hofi. Eg sendi Guðm. H. og Guðjón í Sponsgerði að Gæsum fékk þar bát og 2 menn eptir kolum inn á Akureyri handa kirkjunni þeir komu aptur um kvöldið. Grafið barn frá Bragholti.

3. desember 1863

Sunnan frostgola og renningur. Eg skrifaði ýmislegt, klippti af Guðm. skrifara. Guðm. H. sókti smávegis að Gæsum. Sra Páll á Vollum gisti hjá amtmanni.

4. desember 1863 - Hannes 2 ára

Suðvestan stórkafald með fjarskalegu veðri. Afmælisdagur Hannesar litla Havsteins. Amtm. hafði boðið ýmsum kunningjum sínum í afmælisveizlu, en eingir gátu komið, vórum við hér heimamenn eg, Sra Pall og sonur hans í veizlu þessari hjá amtmanni, og var fast drukkið til kl. 12 um kvoldið. Drakk eg duglega og varð ekki meint við og svaf vel um nóttina. Við Guðm. Pálsson drukkum dús. Sra Páll og Amtm. vóru fullir og fl.

5. desember 1863

Sunnan froststormur. Eg borðaði frúkost með Amtmanni, journaliseraði bréf sem komu og skrifaði ýmislegt. Guðm. er að revidera yfirlit. Guðm. Halld.s. sókti kol að Gæsum í kirkjuofnin.

6. desember 1863 - 2 S. í Jólaföstu

Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg lagði í Kirkjuofnin og varð hlýtt í kirkju. Messað og eg í kirkju. Grafið barn frá Ytrakoti. Páll Magnusson gisti hjá mér og margir komu. Eg drakk og veitti öðrum brennivín. Sra Páll er hér.

7. desember 1863

Sunnan renningur, gekk svo í norðan hríð. Pall Magnússon fór. Eg revideraði spitalahluta reikning og yfirlit. Guðm. Hallds. og Þorl. Jonsson fóru með Gránu mína fram í Heggstaði til að hafa kýrskipti á henni þar. Eg samdi og hreinskrifaði spítalareikning minn um kvöldið. Varð nú eptir kröfu Amtmanns að greiða alla peningana af hendi 163rd 1s. Dæmalaus þykja nú þessi harðindi og stöðuga ótíð síðan í sumar.

8. desember 1863

Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg sat við að skrifa ýmislegt. BT Mad. Daníelsen. Sra Páll fór héðan heim. Nú er jarðlítið og harðindalegt.

9. desember 1963

Sunnan frostharka og drífa að öðru hverju. Eg sat við skriftir. Guðm. og Þorl. komu með kúna frá Heggstöðum. Jens Stæhr keyrði heim til mín kirkju kolin frá Gæsum. Níels austan póstur kom um kvöldið.

BF S. Laxdahl og 8 b pappírs

BF Joni Kristjanssyni og

BF Joni á Hofsá, BT hans aptur.

20. desember 1863 - 4 S í Jólaföstu

Sunnan renningur hríðarlegt og frostharka. Messað. Eg ekki í kirkju en lgði vel í kirkjuofnin. Eg skr. BT J. Borgfjörð BT Tomasar í Floguseli og fleyra. Thóta litla fór inná Akureyri til veru. Eggert Gunnarsson gisti hjá amtmanni.

21. desember 1863

Norðan frostgrimdar veður með renning. Eg var að revidera hreppsbækur úr Skagafjarðar sýslu og fl. Eg lét þvo kirkjuna og var farið að búa sig undir Jólin. Eg fékk BF. Páli Sveinssyni og Billedmagazin. Skrifaði BT. P. Johnsens BT B. Jonssonar, sendi þeim pappir og Guðm á Varðgjá.

22. desember 1863 - Sólstöður styttstur d.

Sunnan stormur með frosthörku og renning. Eg lauk við revision hreppsbókanna úr Sfs. og var að öðru leyti við skriftir, sendi Guðm Halldórsson í kaupstað eptir smávegis til jólanna.

23. desember 1863 - Þorláksd.

Sunnan gola og frostgrimd. Eg sat við skriftir. Guðmundur kom úr kaupstaðnum BF. Arna í Holti um rekaítök o.fl.

24. desember 1863 - Aðfangadagur

Frostharka og drífa nokkur. Eg skrifaði um daginn og við Guðm. báðir. Hingað Jón Kristiansson og Eggert Gunnarsson að vera hér um jólin. Eg borðaði hjá amtm og gestum hans um kvöldið veitti svo púns heima hjá mér var seinast við lestur hjá Þorláki. Allir skemtu sér eptir föngum. Eg hafði litla ánægju.

25. desember 1863 - Jóladagur

Fjúk og frost og norðan stórhríð um kvöldið ófærð ókljúfandi. Eg lét leggja í kirkju ofnin fyrir dag. Messað og eg í kirkju. Hér var nokkuð drukkið og skemt sér um kvöldið, Þorlakur Jonsson hér var fullur og vandræðagripur til leiðinda öllum.

26. desember 1863

Norðan frostharka og hríð. Ekki messað. Hér vóru haldnir leikir ýmsir spilað og teflt og tók eg lítin þátt í því.

27. desember 1863 - S. milli Jóla og Nýárs

Sunnan frostgola og bjartviðri. Ekki messað. Eg sat við skriftir fyrir amtmann. Fólkið lék lítilfjorlega Comedíu á lopti Þorláks.

31. desember 1863

[...]

Á árinu 1864 verð:

eg … 43 ára 17 Marts

Kona mín … 38 –//– 14 August

Sigríður sal dóttir m. … 11 –//– 15 Febrúar

Björg –//– … 10 –//– 11 Mai

Armamann sál s.m. … 9 –//– 11 October

Jón Stephán –//– … 7 –//– 16 Nóvembr

Armannia Sigriðr sál. … 4 –//– 23 Septembr

Armann s.m. … 3 –//– 8 Septembr

Januaríus eður miðsvetrarmán. 1864

1. janúar 1864 - Nýársd

Sunnan gola og þíðviðri, messað og lagt vel í kirkjuofnin. Eptir messu gengum við Guðm. skrifari með Lárusi útað Brekku og dvoldum þar fram á vöku heldum svo heim. (apríl). Hér var nokkur drykkjuskapur um kvöldið og slark til kl. 2. (2munde etc)

2. janúar 1864

Sunnan gola og þýðt lítil hláka. Eg sat við að yfirfæra í journal 1864 og skrifaði nokkur bréf (iðstesu likba [siðste blik]). leiðinda dagur. Veiga á Reistará var hér. Friðf. fór.

3. janúar 1864 - S. eptir Nýár

Sunnan gola; gekk svo í norðan froststorm. Messað. lagt í kirkju ofnin, hann rauk ákaflega. Eg skrifaði smávegis fyrir mig lauk við yfirfærslu á A. Sigfús á Þrastarhóli eignaðist tvíbura í nótt. Mesti leiðinda dagur. Eg seldi Amtm. 13 hesta af heyi.

4. janúar 1864

Frost og bjartviðri. Eg sat við að yfirfæra í Journalin komst langt í D.

5. janúar 1864

Sama veður, úrsynningur um kvoldið. Eg sat við að yfirfæra komst i F.

6. janúar 1864 - Þrettándi

Sunnan gola og bærilegt veður. Eg sat við yfirfærsluna, komst í M. Eg fekk BF J. Borgfjorð og bækur bundnar Guðm Halldórsson sókti lýsi að Arnarnesi.

Orðskýringar

Rd: ríkisdalur

Rbd: ríkisbankadalur

M: mark

S: skildingur

1 ríkisdalur (ríkisbankadalur) = 6 mörk = 96 skildingar

BF: bréf frá

BT: bréf til

Gæsir: Gásir

Að drekka dús: að innsigla það að þúast með vínskál

Frúkostur: morgunverður

Að revidera: endurskoða