Fara í efni
Mannlíf

Þríþrautaráskorun nemenda í 7. bekk

Lið Naustaskóla. Mynd: akureyri.is.

Um 80 nemendur í 7. bekk Giljaskóla, Glerárskóla, Lundarskóla, Naustaskóla og Síðuskóla tóku í liðinni viku þátt í þríþrautaráskorun sem Akureyrarbær stóð fyrir í samstarfi við Þríþrautarsamband Íslands. Hefðbundin þríþraut samanstendur af sundi, hjólreiðum og hlaupi. Nemendur gátu valið á milli þess að taka einstaklingsárskorun eða liðaáskorun með þremur í liði þar sem hver liðsmaður tók eina grein, einn synti, annar hjólaði og sá þriðji hljóp. 

Ragnar Guðmundsson, verkefnastjóri ungmenna hjá Þríþrautarsambandi Íslands, skipulagði áskorunina í samvinnu við íþróttakennara grunnskólanna og fræðslu- og lýðheilsusvið Akureyrarbæjar. Undirbúningurinn hófst haustið 2023.


Lið Giljaskóla í þríþrautarkeppninni. Mynd: akureyri.is.

Fram kemur í frétt af verkefninu á vef Akureyrarbæjar að aðstæður til þríþrautar hafi verið mjög góðar. Synt var í Glerárlaug í góðri samvinnu við starfsfólk sundlaugarinnar og hjóla- og hlaupaleið var útfærð í skemmtilegu umhverfi Glerárskóla þar sem nemendur komu í mark á Þórsvellinum. Allir þátttakendur sýndu mikinn metnað og kláruðu þrautirnar með miklum sóma með góðum stuðningi samnemenda sinna. Að keppni lokinni fengu þátttakendur afhent viðurkenningarskjal frá Þríþrautarsambandi Íslands.

Þá er einnig sagt frá því að þríþrautardeild UFA, Norðurljósin, vinni að því að setja upp ungmennaþjálfun á næsta skólaári og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér það frekar - sjá hér.


Lið Síðuskóla í þríþrautarkeppninni. Mynd: akureyri.is.