Fara í efni
Mannlíf

Birnir Vagn Finnsson meistari í sjöþraut

Nokkrir af keppendum frá UFA á Meistaramóti Íslands í fjölþraut og Meistaramótinu í mastersflokkum. Fremstar eru Anna Sofia Rappich, Ebba Karen Garðarsdóttir og Eygló Ævarsdóttir. Í miðröð eru Birnir Vagn Finsson, Garðar Atli Gestsson og Dagur Pálmi Ingólfsson og Unnar Vilhjálmsson fyrir aftan. Myndirnar með fréttinni eru fengnar af vef UFA og koma frá FRÍ og Unnari Vilhjálmssyni.

Keppendur frá Ungmennafélagi Akureyrar (UFA) hafa byrjað nýja árið af krafti. Birnir Vagn Finnsson vann á dögunum Íslandsmeistaratitil í sjöþraut karla með sínum næstbesta árangri frá upphafi í stigum talið. Þá unnu sjö keppendur frá UFA samtals 16 gullverðlaun í eldri flokkum á Meistaramóti í sínum aldursflokkum, auk þrennra silfurverðlauna. Umfjöllun og myndir með fréttinni eru af vef UFA.

  • Birnir Vagn Finnsson er Íslandsmeistari í sjöþraut karla þar sem keppt er í 60 metra hlaupi, langstökki, kúluvarpi, hástökki, 60 metra grinidahlaupi, stangarstökki og 1.000 metra hlaupi. Birnir náði sér í 4.343 stig, sem er hans næstbesti árangur frá upphafi. 
  • Garðar Atli Gestsson keppti í sjöþraut í flokki 16-17 ára þar sem hann náði í 3.344 stig og bætti sig í fjórum greinum.
  • Dagur Pálmi Ingólfsson varð Íslandsmeistari í fimmþraut 15 ára drengja þar sem keppt er í 60 metra grindahlaupi, langstökki, hástökki, kúluvarpi og 800 metra hlaupi og bætti hann árangur sinn í þremur greinum. Dagur Pálmi vann fimmþrautina með yfirburðum, náði sér í 2.556 stig og fór þannig yfir lágmark fyrir unglingalandsliðið. 


Sonja Sif Jóhannesdóttir vann til tvennra gullverðlauna í flokki 45-49 ára, Ebba Karen Garðarsdóttir vann til gullverðlauna og tvennra silfurverðlauna í flokki 35-39 ára og Birnir Vagn Finnsson varð Íslandsmeistari í sjöþraut. 


Ágúst Bergur Kárason er fimmfaldur Íslandsmeistari í flokki 50-54ra ára.

Eldri keppendur sópuðu að sér verðlaunum

Meistaramót Íslands í Mastersflokkum, eins og það er kallað, var haldið samhliða þrautamótinu og þar sópuðu keppendur frá UFA að sér verðlaunum, náðu næstflestum verðlaunum þeirra félaga sem áttu keppendur á mótinu, samtals 16 gullverðlaun og þrenn silfurverðlaun. 

  • Ágúst Bergur Kárason varð fimmfaldur Íslandsmeistari í flokki 50-54ra ára, vann 60, 200 og 400 metra hlaup, langstökk og þrístökk, auk silfurverðlauna í hástökki. 
  • Unnar Vilhjálmsson vann Íslandsmeistaratitil í kúluvarpi.
  • Anna Sofia Rappich vann 60 metra hlaup, langstökk og stangarstökk í flokki 60-64ra ára.
  • Ebba Karen Garðarsdóttir vann 200 metra hlaup í flokki 35-39 ára og náði sér í silfurverðlaun í 60 metra hlaupi og kúluvarpi.
  • Sonja Sif Jóhannesdóttir vann til gullverðlauna í 200 og 400 metra hlaupi í flokki 45-49 ára.
  • Sigríður Hrefna Pálsdóttir vann langstökk, þrístökk og kúluvarp í flokki 45-49 ára.
  • Eygló Ævarsdóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi í flokki 35-39 ára. 


Unnar Vilhjálmsson á verðlaunapalli með gullverðlaun í kúluvarpi ásamt Yngva Karli Jónssyni úr Garpi og Elvari Heimi Guðmundssyni úr HSH.