Fara í efni
Mannlíf

Þórsarar áttu ekki séns í Álftanes

Tim Dalger skoraði flest stig Þórsara í kvöld, eða 23. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar hófu og luku leik í bikarkeppni karla í körfuknattleik í kvöld, VÍS-bikarnum. Þeir fengu lið Álftaness í heimsókn í Íþróttahöllina á Akureyri og máttu sætta sig við 42ja stiga tap þegar upp var staðið.

Fyrirfram var eðlilega ekki búist við því að Þórsliðið ætti mikla mögueika gegn sterku liði Álftaness og það kom líka fljótlega í ljós þegar leikurinn hófst. Gestirnir skoruðu fyrstu átta stig leiksins og röðuðu niður þristunum í fyrsta leikhlutanum, skoruðu þá úr átta þriggja stiga skotum. Munurinn var orðinn 24 stig eftir fyrri hálfleikinn.

Seinni hálfleikurinn hófst með svipuðum hætti og sá fyrri, fyrstu tíu stigin voru gestanna og áfram dró jafnt og þétt í sundur með liðunum. Munurinn að lokum 42 stig. Það vakti nokkra furðu þegar munurinn var í kringum 40 stig og innan við fimm mínútur eftir þegar þjálfari Álftaness fór fram á það við dómara leiksins að þeir færu yfir atvik á upptöku, skoða á skjá hvort einfaldur dómur var réttur eða rangur. Hann reyndist réttur og skipti þó engu máli fyrir gang leiksins hvort svo hefði verið eða ekki.

Tim Dalger var stigahæstur Þórsara með 23 stig, Baldur Örn Jóhannesson tók níu fráköst. 

  • Byrjunarlið Þórs: Andrius Globys, Baldur Örn Jóhannesson, Orri Már Svavarsson, Reynir Barðdal Róbertsson og Tim Dalger.
  • Gangur leiksins: Þór - Álftanes (22-37) (16-25) 38-62 (15-30) (18-21) 71-113 

Tölfræði leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Tim Dalger 23 - 4 - 4
  • Andrius Globys 20 - 6 - 1
  • Veigar Örn Svavarsson 10 - 1 - 0
  • Reynir Barðdal Róbertsson 7 - 3 - 3
  • Baldur Örn Jóhannesson 4 - 9 - 4
  • Páll Nóel Hjálmarsson 3 - 3 - 0
  • Smári Jónsson 2 - 1 - 2
  • Orri Már Svavarsson 2 - 1 - 1
  • Arngrímur Friðrik Alfreðsson 0 - 0 - 1

Helstu tölfræðiþættir liðanna. Eins og sjá má á myndinni lágu yfirburðir gestanna meðal annars í fjölda frákasta og skotnýtingu í þriggja stiga skotum. Alls skoruðu þeir úr 17 þriggja stiga skotum, 51 stig af 113.

Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins.