Fara í efni
Mannlíf

Sævar Ingi, Sutton, síld og Surströmming

Sævar Ingi Rúnarsson er ekki aðeins formaður hnefaleikadeildar Þórs heldur einnig dómari í hnefaleikum og hefur borðað síld og sýnt á Facebook fyrir aðventuna sem lið í fjáröflun fyrir deildina sína. Þetta er þriðja aðventan sem Sævar Ingi borðar síldina.

Sævar Ingi Rúnarsson, formaður hnefaleikadeildar Þórs, hefur tekið upp á heldur óvenjulegri leið til fjáröflunar fyrir deildina sína fyrir undanfarin jól. Hann hefur náð sér í stóra fötu af síldarbitum og borðað upp úr henni á aðventunni. Í ár hefur hann fengið til sín félaga úr deildinni og öðrum deildum félagsins til að borða síldina með sér. Hann bætti líka þorskalifur á matseðilinn fyrir nokkrum dögum og í dag er komið að stærstu áskoruninni: Surströmming! 

Tíðindamaður frá Akureyri.net var svo óheppinn að eiga ekki möguleika á að þekkjast boð Sævars um að takast á við dós af Surströmming – súrsíld, eins og hún er kölluð hérlendis; kæst Eystrasaltssíld sem vinsæl er í Svíþjóð og talin nauðsynleg á jólaborðum. Lyktin er þó verri en orð fá lýst að mati margra og spennandi að sjá hvort Sævari hefur tekist að fá einhvern með sér. Formaðurinn ætlar þó ekki að opna dósina fyrir ekki neitt því hann er í þessu síldaráti til að safna áheitum og styrkjum fyrir hnefaleikadeildina.

Á áttunda tímanum í morgun birti hann áskorun á Facebook-síðu deildarinnar og víðar þar sem hann kallar eftir því að fólk styrki deildina, bað fólk um að hjálpast að með því að styrkja deildina um að minnsta kosti 500 krónur „svo þessi guðs volaða dós verði nú opnuð!“ eins og hann orðaði það. Í morgun vantaði hann enn 100 þúsund krónur upp á að ná takmarkinu áður en dósin af Surströmming yrði opnuð og sænska sælgætið innbyrt.

  • Söfnunarreikningur deildarinnar er 0565-14-1917, kt. 5606160310.

Gestasíldar úr öðrum deildum

Fyrir nokkrum dögum bauð hann körfuboltakonunni vinsælu, Maddie Sutton, að setjast niður með sér og smakka á síldinni. Myndband af máltíðinni var svo birt á síðu hnefaleikadeildarinnar á Facebook - sjá hér. Þar má einnig finna fleiri myndbönd af gestum að gæða sér á síld eða þorskalifur með Sævari. 


Maddie Sutton og Sævar Ingi Rúnarsson gæða sér á gæðasíld. 

Valgerður Telma Einarsdóttir hnefaleikakona mætti og gæddi sér á þorskalifur úr dós með Sævari þann 15. desember, Aron Birkir Stefánsson markvörður karlaliðs Þórs í knattspyrnu, borðaði síld með Sævari 17. desember, Heiðmar Örn Björgvinsson handboltakappi mætti í síldina 18. desember. Sævar Eðvarsson var fulltrúi rafíþróttadeildarinnar og gestasíld eins og nafni hans Rúnarsson orðaði það í síldarþættinum 19. desember. Oft hefur Sævar líka setið einn að snæðingi og rætt um daginn og veginn, heilnæmi síldarinnar, hnefaleika og fleira. Óskar Jónasson var mættur fyrir hönd píludeildarinnar og gæddi sér á síldinni í gær.