Fara í efni
Mannlíf

Styrkum stoðum rennt undir atvinnulífið

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, fagnar mjög stofnun Samherjafrændanna Þorsteins Más og Kristjáns á félaginu Drift sem tilkynnt var um í morgun. Félagið verður í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg; Kaldbakur, eignarhaldsfélag Samherja, eignaðist húsið fyrir rúmu ári og markmiðið er að þar verði miðstöð nýsköpunar á Eyjafjarðarsvæðinu.

„Þetta eru ákaflega góðar fréttir. Með þessu góða framtaki er augljóslega rennt styrkum stoðum undir atvinnulífið í Eyjafirði með það fyrir augum að byggja það upp til framtíðar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hið nýja félag mun styrkja allan Eyjafjörð, og jafnvel nærsveitir, sem eitt atvinnusvæði með nýsköpun að leiðarljósi,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri.

„Samstarf sveitarfélaga á svæðinu hefur verið með miklum ágætum og verður vonandi enn kraftmeira í nánustu framtíð. Það er líka afar ánægjulegt að þessi glæsilega bygging við Ráðhústorgið á Akureyri hafi nú fengið verðugt hlutverk og verði nú miðpunktur nýsköpunar í Eyjafirði,“ segir Ásthildur Sturludóttir.i.

Akureyri.net í morgun: Stofna félag og hyggjast blása til nýrrar sóknar í atvinnumálum Eyjafjarðarsvæðisins