Fara í efni
Mannlíf

Eigum að vera stolt og setja kassann oftar út!

Stofnendur Driftar og framkvæmdastjórinn. Frá vinstri: Þorsteinn Már Baldvinsson, Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir og Kristján Vilhelmsson. Mynd: Skapti Hallgrímsson

„Nýsköpun er forsenda framfara,“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja og stofnandi nýsköpunar- og frumkvöðlafélagsins Driftar EA ásamt Kristjáni Vilhelmssyni frænda sínum, þegar félaginu var formlega ýtt úr vör í gær

Drift er til húsa í Landsbankahúsinu við Ráðhústorg eins og áður hefur komið fram. „Hérna í hjarta Akureyrar er vel búið húsnæði og allur stuðningur við frumkvöðlana eins og best verður á kosið. Það er því full ástæða til að vera nokkuð bjartsýn á framtíðina á þessum degi. Við eigum að setja kassann út og sameinast um að efla atvinnulíf svæðisins enn frekar,“ sagði Þorsteinn Már.

Allir beinir í baki

Hann óskaði frumkvöðlum sem hæfu störf í húsinu velfarnaðar og sagði aðstoðina við þá verða af margvíslegum toga. 

„Við vitum að ekki verða allar hugmyndir að veruleika og við skulum vera raunsæ í þeim efnum,“ sagði Þorsteinn Már en bætti við: „Hérna verður vel tekið utan um öll verkefni og markmiðið er að allir fari út sáttir, beinir í baki, hver sem niðurstaðan er. Við vitum að allir munu leggja sig fram. Þess vegna eiga allir, þótt draumarnir rætist ekki, að fara héðan sáttir og beinir í baki.“

Eivind Molvær og Kristina Giske, eigendur Vest Studio í Noregi, sem hönnuðu allt markaðsefni Driftar, Þorsteinn Már Baldvinsson, Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Driftar EA, Kristján Vilhelmsson og Kristján Þór Júlíusson stjórnarformaður Driftar.

Eigum að vera stolt

Þorsteinn lagði áherslu á að Eyjafjarðarsvæðið væri alþjóðlegt þekkingarsamfélag. „Við eigum að vera stolt af atvinnulífinu hérna. Setja kassann oftar út!“ sagði hann.

„Samherji er fyrst og fremst útflutningsfyrirtæki, sem keppir á hörðum alþjóðlegum mörkuðum. Innan félagsins hefur verið byggð upp gríðarleg alþjóðleg sérhæfð þekking. Innan Samherja er saman komin heimsins mesta þekking á landeldi á lax og bleikju. Og félagið rekur fullkomnustu vinnsluhús heims á hvítfiski.“

Hann sagði fjölmörg önnur fyrirtæki á svæðinu koma upp í hugann hvað þetta varðar því þau byggi starfsemi sína að stórum hluta á alþjóðlegum viðskiptum og þjónustu. „Ég bind miklar vonir við að Drift, þetta nýsköpunar- og frumkvöðlafélag, skili okkur enn öflugra atvinnulífi.“

Ný spennandi fyrirtæki og vel borgandi störf

Um eitt ár er síðan frændurnir tilkynntu um stofnun félags, sem hefði ‏‏‏‏‏‏‏‏‏þ‏‏‏að markmið að byggja upp frumkvöðla- og nýsköpunarstarf á Eyjafjarðarsvæðinu, „þar sem frumkvöðlar og fyrirtæki fái aðstöðu og stuðning til að vinna hugmyndum sínum framgang innan og utan landsteinana,“ eins og Þorsteinn Már komst að orði í ávarpi á samkomu á tímamótunum í gær.

Hann sagði að vel hefði verið haldið á spöðunum undanfarið ár og viðtökur hafi verið afar jákvæðar; þeir hafi fengið byr í seglin strax í upphafi. „Markmiðið er að skapa ný spennandi fyrirtæki og vel borgandi störf,“ sagði Þorsteinn.

Þakklæti og sókn á ný mið

„Af hverju erum við frændur að þessu?“ spurði hann í ávarpi sínu og svaraði að bragði: „Jú, á síðasta ári voru liðin fjörutíu ár frá því gengið var frá kaupum Samherja hf á Guðsteini GK sem breytt var í frystitogarann Akureyrin EA. Frá þeim tímamótum hefur Samherji verið með stærstan hluta starfseminnar við Eyjafjörð.“

Höfuðstöðvar Samherja hafa alla tíð verið á Akureyri, skip félagsins hafa verið gerð út þaðan félagið hefur verið vel búin vinnsluhús á Akureyri og á Dalvík. „Í tilefni 40 ára afmælisins vildum við sýna þakklæti okkar í verki fyrir þetta langa og farsæla samstarf við okkar nærsamfélag og blása til nýrrar sóknar, sækja á ný mið – skapa frjóan jarðveg fyrir nýsköpun og styðja þannig áfram og enn frekar við uppbyggingu atvinnulífsins á starfssvæði félagsins,“ sagði Þorsteinn Már.