Stöðvar enginn tímans þunga nið?
Davíð frá Fagraskógi orti um árið að enginn stöðvi tímans þunga nið. Er það svo?
Vitaskuld er ofsagt að víst stöðvi einhver tímans þunga nið en líklega þykir íbúum höfuðstaðar Norðurlands þeir varla komast nær því að tíminn standi í stað en þegar klukka Akureyrarkirkju stöðvast og hringir ekki vikum saman. Klukkuna þá arna hefur vantað 27 mínútur í níu síðustu vikur og verður kyrr og þögul áfram – sennilega lengi enn, því miður.
Stjórnkerfið er bilað og að öllum líkindum þarf að senda það úr landi til framleiðandans í viðgerð. Kerfið stýrir bæði bjöllum á þaki og klukkunni, sem prýðir stafn kirkjunnar og margir líta til oft á dag.
Ekki hefur verið mögulegt að hringja út við lok jarðarfara en handhringt hefur verið inn í jarðarfarir með því að toga í kaðal sem festur er við litla bjöllu. Sú aðferð býður langt frá því upp á sama hljóm.
Auk þess að slá hæfilega mörg högg á hverjum heilum tíma leikur klukkan lag, ferhendu, sem Björgvin Guðmundsson tónskáld samdi, að því er kemur fram í Sögu Akureyrarkirkju, eftir Sverri heitinn Pálsson. „Hún leikur fyrstu hendinguna eftir fyrsta fjórðung hverrar stundar, hálft lagið á hálfa tímanum, bætir þriðju hendingunni við eftir þrjá stundarfjórðunga og leikur svo lagið í heild á hverjum heilum tíma. Hendingarnar tákna hver sitt æviskeið, uppvöxtinn, ungþroskaskeiðið, manndómsárin og hnignunina.“
Nú ríkir þögnin ein. Og tíminn stendur loksins í stað, hvort sem fólki líkar betur eða verr ...