Fjölbreytt kirkjustarf og dragdrottning
Mömmumorgnar í Akureyrarkirkju eiga sér tæplega þrjátíu ára sögu. Fyrsta slíka samveran var í nývígðu Safnaðarheimili kirkjunnar 6. mars árið 1991.
Þrátt fyrir heitið hafa pabbar alltaf verið velkomnir á mömmumorgna og til að árétta það skiptu þeir nýlega um nafn og heita nú foreldramorgnar.
„Í seinni tíð hefur oft verið á það bent að foreldrar, og sérstaklega ungar mæður, séu í þeirri hættu að einangrast inni á heimilum sínum. Með þessum „mömmumorgnum“ er hugmyndin að láta á það reyna hvort kirkjan geti ekki lagt sitt af mörkum til að rjúfa þá einangrun og styðja við unga foreldra sem eru að takast á við hið vandasama hlutverk uppalandans,“ segir í kynningu á þessari nýjung í safnaðarstarfi kirkjunnar í Safnaðarblaði Akureyrarkirkju í mars árið 1991.
Mömmumorgnar hafa ýmist verið óformlegar samverur eða með gestum sem hafa frætt viðstadda um hin ýmsu mál eða kynnt þjónustu og vörur. Lengi skiptust prestarnir á að vera viðstaddir mömmumorgnana en hin síðari ár hefur starfsmaður kirkjunnar sem sinnir málefnum barna og ungmenna haft yfirumsjón með stundunum.
Myndin er tekin á mömmumorgni ekki löngu eftir að greinarhöfundur kom til starfa í Akureyrarkirkju árið 1995. Þar kynnti jafnaldra hans og vinkona af Eyrinni, Halla Gunnarsdóttir, snyrtingu og snyrtivörur. Áður hafði hinn nýi prestur verið spurður að því hvort hann væri ekki til í að fá snyrtingu hjá Höllu á næsta mömmumorgni. Að sjálfsögðu svaraði hann því játandi enda ekki vanþörf á.
Hitt fór á hinn bóginn framhjá honum að fyrirhugaðar aðgerðir áttu að vera töluvert róttækari en smávægilegar lagfæringar á andliti hans. Markmiðið var að breyta miðaldra karli í glæsilega konu eða dragdrottningu eins og það er kallað. Aðgerðir voru á fyrstu stigum þegar myndin var tekin.
Viðtalstími hjá dragdrottningu!
Eftir að allskonar meiki hafð verið smurt framan í prestinn og bæði varir hans og augu máluð var hárkollu komið fyrir á höfði hans. Hann var látinn klæðast flegnum kjól og smeygja sér í háhælaða skó. Sköpunarverkið var síðan fullkomnað með því að setja skrautlega festi um hálsinn. Skartið hvíldi á þrungnum barmi sem hafði verið útbúinn á prestinn með því að koma tveimur samanvöfðum sokkapörum fyrir á flatneskjuna á bringu hans.
Ekki vafðist þessi umbreyting fyrir Höllu og aðstoðarfólki hennar en verkið tók sinn tíma. Þegar því loksins lauk var viðtalstími prestsins hafinn. Þangað var mætt ungt par sem hafði beðið hann að gifta sig þá um sumarið og ætlaði að hefja undirbúning athafnarinnar.
Brá þeim mjög þegar presturinn sem ætlaði að gefa þau saman birtist og reyndist vera dragdrottning í kjól og á háum hælum. Á milli brjóstanna á flegnum kjólnum glitti í loðnubrúsk.
Foreldramorgnarnir í Akureyrarkirkju eru eitt dæmi um viðleitni kirkjunnar til að bregðast við ákveðnum aðstæðum í þjóðfélaginu.
Annað dæmi um slíkt starf er miðstöð fyrir fólk í atvinnuleit sem stofnuð var í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju eftir mikil áföll í atvinnurekstri í bænum á níunda áratug síðustu aldar. Miðstöðin var samvinnuverkefni Akureyrarkirkju, verkalýðsfélaganna í bænum og Heilsugæslustöðvarinnar. Hvern miðvikudag var opið hús í Safnaðarheimilinu fyrir fólk sem hafði misst vinnuna. Þangað komu góðir gestir með fræðslu fyrir viðstadda, blöðin lágu frammi og ennfremur kaffisopi og brauð. Einnig var boðið upp á ferðir um nágrennið til gagns og gamans. Eitt haustið var til dæmis farið í kartöfluupptöku og fengu þátttakendur hlut í uppskerunni. Síðar varð handverks- og tómstundamiðstöðin Punkturinn, einn ávöxtur þessa merkilega starfs í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju.
Mánudagur gegn mæðu. Á vinstri myndinni er fundarstýran, Margrét Blöndal, og Sigurður Kristinsson, heimspekingur, sem fræddi viðstadda um hamingjuna. Hægri myndin: Corrine Dempsey, prófessor í trúarbragðafræðum við Wisconsin háskólann í Bandaríkjunum, kynnir rannsóknir sínar á andlegum hæfileikum Akureyringa.
Tímabundnir erfiðleikar og viðvarandi
Eftir Hrunið árið 2008 var brugðist við því ástandi í Akureyrarkirkju með því að segja neikvæðninni stríð á hendur. Efnt var til samvera á mánudagskvöldum undir yfirskriftinni „Mánudagar gegn mæðu“. Á þeim var boðið upp á tónlist, fræðslu og léttar veitingar. Umræðuefnin voru af ýmsu tagi; fjölskylduráðgjafi fjallaði um mikilvægi fjölskyldunnar, sálfræðingur um vonina, heimspekingar um hamingjuna og bandarísk fræðikona sagði frá rannsóknum sínum á andlegu lífi Akureyringa, svo dæmi séu tekin. Samverurnar voru veturinn erfiða 2008 – 2009 og einnig veturinn þar á eftir.
Erfiðar þjóðfélagsaðstæður eru sem betur fer oft tímabundnar. Bankahrun og kórónuveirufaraldur eru dæmi um slík vandamál. Önnur eru viðvarandi. Meðal þeirra er áfengis- og vímuefnavandinn. Þegar sr. Jóna Lísa Þorsteinsdóttir þjónaði í Akureyrarkirkju byrjaði hún með helgihald byggt á æðruleysisbæninni og kallaði það æðruleysismessur. Þær voru að sænskri fyrirmynd og fór Jóna Lísa ásamt starfsmanni kirkjunnar til Svíþjóðar til að kynna sér þetta starf áður en hún hóf það í Akureyrarkirkju. Æðruleysismessurnar eru enn þáttur í helgihaldi þar og í fleiri kirkjum landsins en sr. Jóna Lísa var upphafsmaður þessa milkilvæga starfs hér á landi.
Bleikar messur hafa verið árlegir viðburðir í mörgum kirkjum. Sr. Hildur Eir Bolladóttir var frumkvöðull að því starfi í Akureyrarkirkju í samstarfi við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis. Það helgihald er annað dæmi um starf sem er viðbrögð við ákveðnum aðstæðum í þjóðfélaginu.
Of margir foreldrar í þessu landi eiga ekki kost á að fara í sumarfrí með börnum sínum. Nokkur sumur bauð Akureyrarkirkja fjölskyldum sem þannig er ástatt fyrir til dvalar í Kirkjumiðstöðinni við Vestmannsvatn. Þar dvöldu fjölskyldurnar nokkra daga, fóru á báta, gengu um Vatnshlíðarskóg og nutu fagurrar náttúru á staðnum sem hefur upp á svo ótalmargt að bjóða.
Séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, skrifar að beiðni Akureyri.net, í tilefni 80 ára vígsluafmælis kirkjunnar sem var 17. nóvember. Þetta er sjötta grein Svavars.