Fara í efni
Mannlíf

Slökkviliðið líklega af Eyrinni að Súluvegi

Lóðirnar við Súluveg 3 og 5 eru á græna blettinum handan Miðhúsabrautarinnar á þessari mynd. Myndir: Þorgeir Baldursson.

Slökkvilið Akureyrar mun að líkindum fá lóðirnar að Súluvegi 3-5 undir byggingu nýrrar slökkvistöðvar. Dýralæknaþjónusta Eyjafjarðar hafði áður fengið lóðinni nr. 3 úthlutað í ágúst 2022 undir byggingu dýraspítala, en þar sem framkvæmdir höfðu ekki hafist á tilskildum tíma féll lóðin aftur til bæjarins.

Akureyri.net fjallaði um málið í sumar þegar umsókn Slökkviliðs Akureyrar um lóðirnar var tekin fyrir og í framhaldinu þegar Dýralæknaþjónustan ítrekaði áhuga á að halda áfram með áform um byggingu dýraspítala. 

Finna nýja lóð fyrir dýraspítala

Skipulagsráð tók erindi Dýralæknaþjónustunnar fyrir á fundi í vikunni. Fyrir fundinum lá greinargerð Slökkviliðs Akureyrar um áhuga þess á lóðinni. Skipulagsráð bendir á að frestur til framkvæmda samkvæmt almennum byggingarskilmálum sé liðinn og í ljósi þess að Slökkvilið Akureyrar telji að umrætt svæði sé best fallið fyrir nýja slökkvistöð til framtíðar hefur ráðið falið skipulagsfulltrúa að finna nýja hentuga staðsetningu fyrir dýraspítala. 

Umferðarþungi á Eyrinni tefur

Í greinargerð Slökkviliðs Akureyrar ítrekar Gunnar Rúnar Ólafsson slökkviliðsstjóri að staðsetning lóðarinnar henti slökkviliðinu afar vel út frá mikilvægum þáttum eins og staðsetningu með tilliti til útkallstíma og nálægðar við stofnbrautir. Bent er á að með stækkun Akureyrarbæjar til norðurs og suðurs sé þessi staðsetning nokkuð miðsvæðis, um þremur kílómetrum frá hvorum enda í beinni loftlínu miðað við fimm kílómetra frá núverandi staðsetningu. Þá sé umferðarþungi á svæðinu lítill og lóðin bjóði upp á svæði til athafna slökkviliðsins, þjálfunar og æfinga. Þá sé lóðin nokkuð fjarri íbúðabyggð, um 220 metrum og því ekki mikil truflun af starfseminni fyrir nágranna.

Slökkviliðsstjóri segir nauðsynlegt að huga að byggingu nýrrar stlökkvistöðvar því núverandi staðsetning sé mjög slæm vegna mikillar umferðar á svæðinu og það tefji útkallstíma slökkviliðsins. Þetta hafi farið versnandi á undanförnum árum og miðað við áætlanir um skipulag á Eyrinni muni umferð þyngjast enn frekar. 

Útkallstími hefur lengst með stækkun bæjarins

Með núverandi staðsetningu hefur útkallstími slökkviliðsins lengst nokkuð vegna stækkunar bæjarins til suðurs með tilkomu Nausta- og Hagahverfanna. Þá segir Gunnar Rúnar einnig spila inn í að núverandi húsnæði sé óhentugt og of lítið fyrir alhliða björgunar- og slökkvistöð. Hann segir það því mat sitt að mjög skynsamlegt sé að ráðast í byggingu nýrrar slökkvistöðvar sem fyrst með starfsemi slökkviliðsins og fjárhagslegan ávinning fyrir samfélagið í huga. 

„Eftir ítarlega skoðun á staðsetningu fyrir nýja slökkvistöð er það okkar mat að umrædd staðsetning á lóð að Súluvegi 3-5 sé mjög hentug fyrir starfsemi okkar og sjáum við ekki aðrar staðsetningar innan bæjarlandsins sem henta liðinu jafn vel ef mið er tekið af ofangreindum þáttum sem eru mjög mikilvægir þegar kemur að tímaháðri neyðarþjónustu,“ segir slökkviliðsstjóri einnig í greinargerð sinni. 

Athygli vekur að í greinargerð slökkviliðsstjóra er nefnt að staðsetningin sé nokkuð fjarri íbúðabyggð, en í bréfi Dýralæknaþjónustu Eyjafjarðar í ágúst er bent á að lóðin henti vel undir dýraspítala vegna nálægðar við íbúðabyggð og hesthúsahverfi.

Þessi loftmynd sýnir staðsetningu núverandi slökkvistöðvar (rauður punktur) og fyrirhugaðrar staðsetningar nýrrar stöðvar (svartur) ásamt beinum línum frá hvorri stöð til beggja enda bæjarins. Gulu línurnar eru stofnbrautir. Skjáskot af map.is/akureyri, teikning blaðamanns.