Fara í efni
Mannlíf

Heimild fyrir íbúðum á efri hæðum Austursíðu 4

Fjölbýlishúsið sem sótt var um fyrir hönd Norðurtorgs ehf. að byggja á lóð Austursíðu 4 er hér fremst í mynd, á horni Austursíðu og Síðubrautar. Myndin er skjáskot úr fylgiskjali með umsókninni.

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkti í gær breytingu á aðalskipulagi Akureyrarbæjar 2018-2030 vegna lóðanna Austursíðu 2-6. Í breytingunni felst að landnotkun á svæðinu breytist úr athafnasvæði í verslun og þjónustu. Gert er ráð fyrir blandaðri landnotkun með heimild fyrir íbúðum á efri hæðum og miðað við að íbúðabygging geti verið allt að fimm hæða há. 

Gert er ráð fyrir að húsið sem um ræðir rísi á norðvestur horni lóðarinnar, neðst til vinstri á þessari mynd eins og sést líka vel á teikningunni að ofan. Mynd: Þorgeir Baldursson

Akureyri.net hefur áður fjallað um þetta mál, meðal annars um miðjan október þegar tillagan um breytingu á skipulagi reitsins var samþykkt í skipulagsráði og fór í kynningu. Í þeirri umfjöllun má sjá nokkuð ítarlega útfærslu á hugmyndum um byggingu á lóðinni með verslun og þjónustu á jarðhæð og íbúðum á efri hæðum, en umsóknin um breytingu á skipulagi og heimild fyrir byggingu með íbúðum á efri hæðum var send inn fyrir hönd Norðurtorgs ehf.

Kynningu á tillögunni lauk í lok nóvember og bárust engar athugasemdir, en umsagnir bárust frá Minjastofnun Íslands, umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar og Norðurorku.