Fara í efni
Mannlíf

Skipulagsmálin kynnt á fundi með íbúum

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri setti fundinn, sem var vel sóttur. Standandi til vinstri er Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Ríflega eitt hundrað manns mættu á kynningarfundinn Hvernig verður Akureyri árið 2030? sem haldinn var í Hofi síðdegis á fimmtudag þar sem Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri, Halla Björk Reynisdóttir, formaður skipulagsráðs, og Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi kynntu skipulagsmál bæjarins, verkefni sem eru í gangi, verkefni sem eru í vinnslu og undirbúningi, framtíðarsýn og fleira. Fyrr um daginn var haldinn sams konar fundur með fagaðilum og var hann einnig vel sóttur.

Meðal þess sem bar á góma í fyrirspurnum gesta má nefna Lækjargilið, hjólastíga, þyrlupall, miðbæjarskipulagið, Móahverfið, þétting byggðar og margt fleira. 


Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi fór yfir skipulagsmálin, verkefni í gangi og undirbúningi, framtíðarsýn og fleira, í máli og myndum. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Halla Björk og Pétur Ingi fóru yfir skipulagsmálin og þau verkefni sem eru í gangi og fyrirhuguð, allt frá stækkun bæjarins, þéttingu byggðar og miðbæjarskipulagi yfir í stígakerfi, íbúaþróun og fleira.

Akureyrarvöllur íbúunum hugleikinn

Framan við fundarsalinn mátti finna skipulagsuppdrætti og myndir tengdar hinum ýmsu skipulagsverkefnum þar sem gestum gafst kostur á að skoða og kynna sér þau verkefni sem eru í gangi, og koma með athugasemdir. Þar á meðal var loftmynd af Akureyrarvelli, en eins og Akureyri.net hefur sagt frá er nú verið að undirbúa samkeppni um skipulag svæðisins og nýlega var skipaður starfshópur á vegum bæjarins til að semja samkeppnislýsingu.

Íbúum gafst kostur á að skrifa hugmyndir og ábendingar á litla límmiða og hengja hjá viðkomandi skipulagsmynd. Nokkrir áhugasamir höfðu komið með punkta um Akureyrarvöll.

  • Hátíðarsvæði Akureyrar, útivist-afþreying
  • San Siro!
    Lokaður knattspyrnuvöllur með íbúðir á alla kanta og litla verslun. Sameiginlegur knattspyrnuvöllur fyrir öll knattspyrnulið Akureyrar.
  • 5-8 hæða byggingar meðfram Glerárgötu.
    -skjól fyrir norðanátt
    -skjól frá umferðarhávaða
    -útsýni
    -lítið skuggavarp
    -hringleikahússtemning fyrir torg í miðjunni
  • Stallaðar byggingar
    Nýta þök betur


Halla Björk Reynisdóttir, formaður skipulagsráðs, flutti framsögu og svaraði fyrirspurnum ásamt Pétri Inga og Ásthildi bæjarstjóra. Mynd: Haraldur Ingólfsson