Fara í efni
Mannlíf

Skipulagsgögn birtast í pósthólfi á island.is

Mynd: Hilmar Friðjónsson.

Fréttir af áformum, ákvörðunum, breytingum og öðru er varða skipulagsmál vekja ávallt áhuga lesenda og iðulega margar athugasemdir sem birtast við fréttirnar þegar þeim er deilt á Facebook-síðu Akureyri.net. Upplýsingagjöf á vegum Akureyrarbæjar til þeirra sem hvert og eitt mál varðar hefur nú breyst í samræmi við lög um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.

Fram kemur í frétt á vef Akureyrarbæjar í dag að nú birtist öll gögn frá byggingarfulltrúa og skipulagsráði, afgreiðsla erinda, grenndarkynningar og upplýsingar um önnur sértæk skipulagsmál í pósthólfum þeirra sem málið varðar á island.is.

Nú þegar eiga allir einstaklingar með íslenska kennitölu, og lögaðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá, pósthólf á island.is. Þangað berast gögn frá byggingarfulltrúa og skipulagsráði sem varða viðkomandi og má nálgast þau með því að skrá sig inn á island.is, en einnig hægt að hlaða niður smáforriti frá island.is sem veitir aðgang að gögnum frá opinberum stofnunum. 

Nota skal Skipulagsgáttina (skipulagsgatt.is) til að senda inn athugasemdir vegna grenndarkynninga og breytinga á skipulagi en þar má nálgast allar upplýsingar um þær skipulagsbreytingar sem eru í gangi.