Fara í efni
Mannlíf

Reiðubúinn að víkja að skilyrði uppfylltu

Brynjólfur Ingvarsson, bæjarfulltrúi Flokks fólksins á Akureyri, til vinstri, og greinarhöfundur, Jón Hjaltason.

Jón Hjaltason, sem skipaði 3. sæti á lista Flokks fólksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri í vor og situr í skipulagsráði, kveðst reiðibúinn að víkja „ef stjórn flokksins hrindir í framkvæmd eigin samþykkt um að skipa hlutlausa rannsóknarnefnd“ er fari ofan í kjölinn á máli sem fjallað hefur verið um undanfarið – ásakanir þriggja kvenna í flokknum um andlegt ofbeldi og kynferðislegt áreiti.

Þetta kemur fram í grein sem Jón sendi Akureyri.net í morgun.

Hann heldur áfram: „ Síðan verði haldinn blaðamannafundur í húsakynnum Flokks fólksins þar sem konurnar þrjár, formaður og varaformaður játi mistök, biðjist afsökunar og dragi allan ósómann til baka – því ég er ekki í nokkrum vafa um niðurstöðu slíkrar rannsóknar.“

Jón segir að síðan þeir Brynjólfur Ingvarsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, hafi fyrst „fengið orð í eyra“ 11. júní fyrir að hafa ekki staðið sig þegar kom að skipun í nefndir á vegum bæjarins og þeir játað mistök, hafi enginn minnst á kynferðislegt áreiti né heldur svæsið einelti í nokkra mánuði. 

„Svo gerist eitthvað þriðjudaginn 6. september. Inga Sæland talar við mig í síma og úthúðar Brynjólfi Ingvarssyni. Fyrir honum vaki það eitt að sundra og grafa undan flokknum, hann sé „andsetinn af Halldóri í Holti“ – hennar orð – en þeir tveir hafi bruggað henni launráð um nokkurt skeið ... “ segir Jón.

„En takið eftir: þrátt fyrir að þetta samtal standi drjúga stund og Inga Sæland hafi orðið nær allan tímann, og finni Brynjólfi flest til foráttu, minnist hún ekki einu orði á kynferðislegt áreiti né heldur svæsið einelti sem konurnar þrjár hafa þá mátt sæta í fimm mánuði.“

Smellið hér til að lesa grein Jóns Hjaltasonar