Fara í efni
Mannlíf

Íhugar að stefna konunum fyrir meiðyrði

Hjörleifur Hallgríms, „guðfaðir“ lista Flokks fólksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri í vor, segist íhuga alvarlega að stefna konunum þremur, sem í dag sökuðu hann um kynferðislega áreitni, fyrir meiðyrði. Þetta kemur fram í grein sem hann sendi Akureyri.net í kvöld. Þar segir Hjörleifur jafnframt til greina koma að hann stefni einnig formanni og varaformanni flokksins, Ingu Sæland og Guðmundi Inga Kristinssyni.

Málfríður Þórðardóttir, Hannesína Scheving og Tinna Guðmundsdóttir, sem allar voru á lista flokksins á Akureyri í vor, boðuðu til blaðamannafundar í dag. Í yfirlýsingu á dögunum kváðust þær hafa sífellt verið lítilsvirtar og hunsaðar af körlum í flokknum. Á trúnaðarfundum flokksins hafi þær verið sagðar of vitlausar eða jafnvel geðveikar til að vera marktækar. Þá hafi sumar þeirra orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Það var þó ekki fyrr en á fundinum í dag að þær greindu frá því að þar væri átt við Hjörleif.

Hjörleifur fer hörðum orðum um Málfríði, Hannesínu og Tinnu í greininni. „Sorgarumfjöllum sem er að stórum hluta lygi og óhróður hefur verið í gangi í fjölmiðlum nú um hríð og hefur aðallega beinst gegn tveimur heiðursmönnum þeim Jóni Hjaltasyni og Brynjólfi Ingvarssyni fyrsta og þriðja manni á framboðslista Flokks fólksins og í þriðja lagi mér undirrituðum eins og fyrr segir. Það eru upphlaupsmanneskjur og svikakvensur sem eiga hér hlut að máli en þær eru,“ segir hann.

Smellið hér til að lesa grein Hjörleifs