Fara í efni
Mannlíf

Óliver lifir áfram með fjölskyldunni

Einar Geirsson veitingamaður á Akureyri er gestur í nýjasta 10 bestu hlaðvarpsþætti Ásgeirs Ólafs. 

„Hann ætlaði að verða besti kokkur á Íslandi og honum tókst það. Hann fer hér yfir ferilinn allan og nýja áhugamálið hans, mótorsportið, sem hann ánetjaðist eftir að hafa farið í áfengismeðferð árið 2014,“ segir í kynningu Ásgeirs.

Einar og Heiðdís Fjóla Pétursdóttir misstu Óliver son sinn í hræðilegu slysi fyrir fimm árum. „Hvernig lifir maður með slíkri sorg?“ spyr Ásgeir. Einar ræðir opinskátt um missinn og hvernig Óliver lifir í raun með fjölskyldunni. Hann talar um veitingastaði hjónanna – Rub 23, Bautann, Pizzasmiðjuna og Sushi corner, og segir svo frá fimmta veitingastaðnum sem þau ætla að opna í haust. Margt annað ber svo að sjálfsögðu á góma.

Smellið hér til að hlusta á þáttinn.

Feðgarnir Einar Geirsson, Valgeir, Óliver og Alex í ferð til Liverpool í febrúar 2017, nokkrum mánuðum áður en Óliver lést.