Fara í efni
Mannlíf

Lána lautarferðakörfur, plokkstangir og kökuform

Hrönn Björgvinsdóttir og Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður, bregða á leik, „vopnuð“ plokkstöngum, kökuformi og lautarferðakörfu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Amtsbókasafnið á Akureyri hefur bryddað upp á ýmsum nýjungum á undanförnum árum. Auk þess að lána fólki bækur, eins og það hefur gert frá upphafi, tónlist og kvikmyndir, er safngestum nú boðið að fá að láni kökuform, borðspil, lautarferðakörfur og plokkstangir.

Hrönn Björgvinsdóttir, verkefnastjóri ungmennastarfs, spiladeildar og fjölmenningarstarfs, segir viðbrögð við þessum óhefðbundnu útlánum afar góð. Spilin hafi til dæmis verið í boði í þrjú ár og hafi fallið í góðan jarðveg, en safnið á hátt í 200 mismunandi spil af öllu tagi, ætluð fólki á öllum aldri; frá tveggja ára börnum og upp úr.

Karfa, teppi, blöð og bækur

„Lautarferðakörfurnar lánum við ásamt teppi, nokkrum afskrifuðum tímaritum og jafnvel barnabókum, eftir því hver viðtakandinn er,“ segir Hrönn og bætir við að körfurnar hafi reynst vinsælar en séu reyndar komnar í vetrargeymslu enda lítil spurn eftir þeim á þessum árstíma, eðli málsins samkvæmt.

„Það tekur oft smá tíma fyrir fólk að átta sig á því hvað er í boði. Við byrjuðum með kökuformin í febrúar, fljótlega kom Covid svo það varð engin alvöru hreyfing á þeim fyrr en í sumar en þau hafa verið töluvert vinsæl síðan.“ Fjöldi sniðugra myndakökuforma er í safninu, einnig tól til að forma piparkökur og kransakökur, svo og „tertu sem er í laginu eins og stór bók, sem mikið er notuð fyrir skírnar- og fermingarveislur,“ segir Hrönn.

Plokkstangirnar eru það nýjasta, bættust við í haust. „Bærinn átti þær en stangirnar voru bara teknar fram einu sinni á ári þegar bæjarstjórn hélt plokkdag og rétt þótti að þær væru notaðar sem oftast þannig að við fengum þær til útláns. Margir hafa nýtt sér þær og farið út að plokka.“

Ein ég sit og sauma

Eitt sem vekur athygli blaðamanns er saumavél Amtsbókasafnsins. „Fólki gefst kostur á því að koma hingað á safnið ef það þarf til dæmis að gera við flíkur. Við höfum líka verið með ýmsa viðburði, til dæmis þar sem fólki var kennt að sauma fjölnota grímur vegna Covid. Þá höfum við verið með sniðmót af taupokum og efni í þá, svo fólk getur saumað sér poka. Það hefur vakið áhuga og eftirtekt og skapað skemmtilegar umræður. Við reynum að vera eins græn og við getum og markaðssetjum okkur þannig.“

Vert er að geta þess að fólki stendur saumavélin ekki til boða sem stendur, vegna Covid. Heldur ekki nuddtæki sem safnið er með í boði fyrir gesti sína.

Fata- og leikfangaskipti

„Við viljum vera hluti af deilihagkerfinu,“ bætir Hrönn við og nefnir viðburði eins og fataskipti, leikfangaskipti og spilaskipti. „Þá kemur fólk hér til dæmis með föt sem hafa verið innst í fataskápnum og ekki notuð lengi, og fá einhvern annan fatnað í staðinn. Eins hafa börn komið með leikföng sem þau eru hætt að nota og skipt við önnur börn. Við höfum líka verið með Pálínuboð; þá kemur fólk með alls konar mat og borðar  saman.“

Starfsemi Amtsbókasafnsins er afar fjölbreytt eins og sjá má. Líklega mun fjölbreyttari en margir gera sér grein fyrir.