Hitti Sheeran og get dáið hamingjusamur!
Birkir Blær Óðinsson, tónlistarmaðurinn ungi frá Akureyri, flytur lagið Húsavík (My Home Town) í næsta þætti sænsku Idol söngkeppninnar, á föstudagskvöldið.
Hann er spenntur fyrir því verkefni en þegar Akureyri.net heyrði hljóðið í Birki var honum þó ofar í huga fundur keppenda með írska söngvaranum Ed Sheeran í dag, á hóteli í Stokkhólmi.
Sheeran, sem flytur lag í þættinum á föstudagskvöldið, hefur lengi verið átrúnaðargoð Birkis Blæs. „Hann er eiginlega meira en það; Sheeran er ástæðan fyrir því að ég byrjaði að syngja og semja lög!“ segir Birkir.
Það var því stór stund fyrir Birki þegar þeir hittust í dag. Birkir er ekki bara þekktur sem söngvari heldur er hann frábær gítarleikari – og notar einmitt Sheeran by Lowden 04 gítar, sem framleiddur er af fyrirtæki Írans George Lowden í samstarfi við Sheeran.
„Við fengum að spjalla við hann í góðan hálftíma. Það var frábært. Það er eiginlega sama hvað ég geri í keppninni héðan í frá, ég er búinn að hitta Ed Sheeran, svo ég get dáið hamingjusamur!“ sagði Birkir í kvöld og hló dátt.
Írinn áritaði gítarinn fyrir Birki í dag. „Nú þarf ég að lakka gítarinn svo nafnið detti ekki af!“ sagði Akureyringurinn glaður í bragði.
Keppendum ber að flytja lag á ensku eftir sænskan höfund í næsta þætti og Birkir mun syngja Húsavík (My home town), eins og áður sagði, lag úr húsvísku Hollywood myndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga.
„Þetta var á lista sem við fengum með hugmyndum af lögum. Það er svo oft búið að biðja mig um að taka þetta lag að ég ákvað að slá til núna; best að láta fólkið fá það sem fólkið vill! Ég ætla að gera þetta eins flott og ég get og vona bara að fólki muni líka það.“
Birkir flutti lagið No Good eftir íslensku hljómsveitina Kaleo á föstudaginn var, með miklum tilþrifum. Dómararnir jusu hann lofi en áhorfendur ráða og niðurstaða þeirra verður kynnt í þætti föstudagsins.
Smellið hér til að heyra frábæran flutning Birkis á No Good