Fara í efni
Mannlíf

Hafdís himinlifandi eftir sigur á Vestfjörðum

Hafdís Sigurðardóttir heldur áfram að hlaða á sig verðlaunum í hjólreiðakeppnum. Dagana 23.-28. júlí fór fram mögnuð hjólreiðakeppni á Vestfjörðum, Arna Westfjords Way Challenge, með fjórum hjóladögum, 960 kílómetra vegalengd og hækkun upp á 11.330 metra. Hafdís vann þessa mögnuðu keppni, kvennaflokkinn, og var í þriðja sæti í heildina.
 

Hafdís Sigurðardóttir á verðlaunapalli að keppni lokinni.
Hafdís segir sjálf frá ævintýrinu á Facebook-síðu sinni og segir sæluvímuna enn í hæstu hæðum eftir þessa daga hjólandi um Vestfirðina. 
 
„Þetta var mikið skemmtilegra en ég hefði nokkurn tímann trúað. Fór með það markmið að hjóla mikið og njóta mikið! Það heldur betur stóðst. Gleðin var alls ráðandi í frábærum félagskap, menningarstoppin frábær og naut þess að stoppa á nýjum stöðum,“ skrifar Hafdís.
 

Á malarvegi vestur á fjörðum, landslagið ágætt og Hafdís brosandi á hjólinu. 
„Þetta var auðvitað drullukrefjandi á köflum og þurfti ég oft að kafa djúpt! Erfiðasti dagurinn var dagur þrjú en eftir um 120 km byrjaði ég að stífna innan á vinstra lærinu og var nánast óbærilegt að hjóla í 2-3 klst! Náði að rúlla lærið með pumpunni, hvíla mig í stoppi eftir 190 km og náði svo að hjóla þetta úr mér og kláraði daginn með bros á vör.“
 

Bókstaflega „drullukrefjandi“ ef marka má þessa mynd sem Hafdís birti af sér ásamt fleiri myndum á Facebook.
Hafdís var líka ánægð með gestrisni heimafólks, skipulag keppninnar og framkvæmdina alla. „Þetta voru frábærir dagar og kynntist ég yndislegu fólki. Fólkið á bakvið keppnina eru eitthvað annað yndisleg og gera þessa upplifun alveg einstaka. Leið eins og ég væri hluti af Arna Westfjords fjölskyldu þessa daga 🤍
Takk fyrir mig, Vestfirðir!“