Fara í efni
Mannlíf

Hættulegur vegur og fjölmenni á Hömrum

Mynd: Þorgeir Baldursson

„Árið hefur verið gott, en það var mikil aukning hjá okkur fyrstu þrjá mánuðina,“ segir Ásgeir Hreiðarsson, framkvæmdastjóri útilífsmiðstöðvar skáta á Hömrum. „Við erum með opið allt árið og það hefur verið stöðug fjölgun síðustu ár í vetrargistingu. Það eru nánast eingöngu erlendir ferðamenn sem eru að bætast við yfir vetrarmánuðina. Til dæmis, vorum við með 1300 gistinætur í marsmánuði. Það þýðir að það eru svona fjörutíu manns að gista hérna að meðaltali hverja nótt.“

Veðrið stjórnar ferðinni

„Veðrið er mesti örlagavaldurinn hérna hjá okkur,“ segir Ásgeir, varðandi sumartraffíkina á tjaldstæðinu. „Íslendingar eru bara þannig ferðamenn, að þeir elta veðrið. Við erum til í að leggja á okkur mikil ferðalög þvert um landið fyrir nokkra sólargeisla. Júní var verri en oft áður, einmitt vegna þess að veðrið var ekki hagstætt. Þá var 30% minnkun frá því í fyrra, en júlí er mjög góður hingað til.“

Nýtt svæði norðan við Hamra sem verið er að leggja lokahönd á. Þar hefur fólk fengið að koma sér fyrir þegar plássið vantar..

Möguleikar á stækkun þegar fyllist

Mikið blíðviðri hefur verið á Akureyri á köflum í júlímánuði og það hefur komið fyrir þessa bestu daga, að tjaldstæðið fyllist alveg. Þá hefur starfsfólk tjaldstæðisins möguleika á því að nýta grasflöt í Kjarnaskógi til þess að beina fólki. Eins er verið að leggja lokahönd á nýtt svæði norðan við Hamra, þar sem fólk hefur fengið að koma sér fyrir þegar plássið vantar. 

Ásgeir Hreiðarsson, framkvæmdastjóri útilífsmiðstöðvar skáta á Hömrum.

„Eftir að tjaldstæðinu við Þórunnarstræti var lokað, var farið í að undirbúa stækkun svæðisins hjá okkur,“ segir Ásgeir. „Þá útbjuggum við svæðið hérna fyrir norðan og þar er komið klósett og rafmagn, þó að tenglarnir séu ekki alveg klárir. Flötin hérna efst uppi, í Kjarnaskógi, hefur verið okkur innan handar lengi. Þetta svæði var útbúið fyrir Landsmót skáta árið 1993 þannig að það er alls ekki glænýtt.“

Einhverjir kalla aðkomuna að tjaldstæðinu rómantíska á þessum netta vegi. Það er kannski rómantískt, þangað til að einhver keyrir á þig

„Það sem háir okkur mest núna, er vegurinn hérna upp eftir,“ segir Ásgeir. „Hann er engan veginn að bera alla umferðina sem kemur og fer hérna dags daglega. Þetta er í rauninni hættulegur vegur, en nýlega varð hérna alvarlegt slys þegar kona á hjóli varð fyrir bíl. Hún slapp sem betur fer vel en það var mesta mildi að hún slasaðist ekki meira. Hún mætti bíl í einni af þessum blindhæðum og beygjum sem við erum með á veginum, en auk þess að vera erfiður hvað það varðar, er hann of mjór líka. Tveir bílar með stór hjólhýsi eiga mjög erfitt með að mætast. Svo er hér mikið af gangandi og hjólandi vegfarendum.“ Ásgeir segir að nokkrum sinnum hafi verið haft samband við bæinn vegna ástandsins. 

Mikil og fjölbreytt umferð bíla, hjóla og gangandi

„Það liggur fyrir ályktun um að gera hjóla- og göngustíg, bæði inn í Kjanaskóg og hingað uppeftir, og við erum búin að vera ýta á að þetta verði klárað sem fyrst, en draumurinn væri náttúrulega líka að fá tvíbreiðan veg.“ segir Ásgeir. „Hérna koma til dæmis hópar af krökkum til þess að fara í tjarnirnar, sem er mjög vinsælt leiksvæði heimamanna á heitustu dögunum, og þetta er ekkert sniðugt. Einhverjir kalla aðkomuna að tjaldstæðinu rómantíska á þessum netta vegi. Það er kannski rómantískt, þangað til að einhver keyrir á þig. Þetta er okkar forgangsatriði, í mínum huga, að bæta úr þessum samgöngumálum áður en illa fer.“

Stöðug fjölgun er á gestum útivistarsvæðis skáta að Hömrum með hverju árinu sem líður. Ásgeir segir að gistinætur hafi verið 64.094 árið 2023, miðað við 57.366 árið á undan. Hlutfall Íslendinga var 62% árið 2023 á móti 38% erlendra gesta. 

Mynd: Þorgeir Baldursson

Mynd: Þorgeir Baldursson