Glerártorg: Pílustaður og karókíherbergi
Framkvæmdir eru nú í fullum gangi í tengslum við nýjan pílustað sem opnar á Glerártorgi eftir rúman mánuð. Á staðnum verður boðið upp á átta pílubása og lokað karókíherbergi. Staðurinn opnar undir nafninu Skor en fyrir reka eigendurnir einn pílustað í Reykjavík og tvo í Danmörku. Staðurinn, sem er um 260 fm að stærð og tekur allt að 100 manns, verður við hliðina á Iðunni mathöll.
Hægt að bóka lokað karókíherbergi
Að sögn Braga Ægissonar, eins eiganda Skor, verður staðurinn á Akureyri með sama sniði og aðrir staðir Skor fyrir utan að það verður ekki hægt að kaupa mat á staðnum enda stutt að fara yfir í mathöllina.
Þegar Bragi er beðinn um að útskýra betur út á hvað heimsókn til þeirra gangi þá segist hann oft líkja pílu við keilu. Segir hann að allir geti spilað pílu og í raun sé það mjög einfalt því gestir séu leiddur í gegnum leikinn með aðstoð þeirra eigin pílukerfis. Gestir bóka pílubás og velja síðan á milli mismunandi leikja þar sem þátttakendur keppa sín á milli, annað hvort sem einstaklingar eða lið. Það er skjár sem stýrir öllu, telur stigin og heldur utan um sigurvegarana.
Þá verður einnig hægt að kaupa drykki á bar og bóka lokað karókíherbergi sem tekur allt að 15 manna hóp. Segir Bragi að eigendur Skor hafi lengi haft áhuga á því að opna pílustað á Akureyri enda telur hann að staðurinn verði góð viðbót í bæinn bæði fyrir heimamenn og gesti. Stefnt er að opnun um mánaðarmótin október-nóvember.
Skor á Glerártorgi verður fjórði staður Skor en fyrir er einn Skor staður í Reykjavík og tveir í Danmörku.