Frá öngli í maga um borð í Húna í 18. skipti

Verkefnið Frá öngli í maga er hafið enn á ný um borð í Húna II; þetta er 18. árið sem Húnamenn bjóða nemendum 6. bekkjar grunnskóla við Eyjafjörð í veiði- og fræðsluferð. Það voru nemendur úr Síðuskóla á Akureyri sem riðu á vaðið í gær og fóru fyrstu ferð skólaársins.
Frá öngli í maga er samstarfsverkefni Hollvina Húna II, Akureyrarbæjar, Samherja og auðlindadeildar Háskólans á Akureyri. Í sjóferð gærdagsins var rennt fyrir fisk, vel aflaðist, og að lokinni fræðslu um veiðibúnað, bátinn og mikilvægi fisks í mataræði fólks var aflinn flakaður, grillaður og snæddur – þorskur, ýsa og steinbítur. Höfðu krakkarnir augljóslega gaman af.
Markmiðið með verkefninu er að auka áhuga og skilning barnanna á lífríki hafsins, sjómennsku og hollustu sjávarfangs.
Þorgeir Baldursson var með í för í gær og tók meðfylgjandi myndir.