Mannlíf
Fimmtán ára ferfaldir fimmtarþrautarmeistarar
03.08.2024 kl. 12:00
Öflugir fimmtán ára drengir úr röðum UFA. Hreggviður Örn Hjaltason, Tobias Þórarinn Matharel, Garðar Atli Gestsson og Kristófer Máni Sigurðsson. Aðsendar myndir.
Fimmtán ára drengir úr röðum Ungmennafélags Akureyrar halda áfram að gera það gott í frjálsum íþróttum. Þeir gerðu sér lítið fyrir og röðuðu sér í fjögur efstu sætin í fimmtarþraut 15 ára drengja á Meistaramóti Íslands í fjölþraut, sem fram fór um liðna helgi. Í fimmtarþraut er keppt í 100 metra grindahlaupi, kringlukasti, spjótkasti, langstökki og 800 metra hlaupi.
Mótið er reyndar samsett meistaramót í fjölþraut, 10 km hlaupi og keppni öldunga. Tveir kappar í eldri flokkum komu heim með samtals sjö gullverðlaun. Unnar Vilhjálmsson er þrefaldur Íslandsmeistari í aldursflokki 60-64ra ára og Ágúst Bergur Kárason fjórfaldur Íslandsmeistari með tvö Íslandsmet í flokki 50-54ra ára.
Einum sentímetra frá Íslandsmeti
Tobias Þórarinn Matharel vann fimmþrautina og stefndi á að setja Íslandsmet í 100 metra grindahlaupi og langstökki í flokki 15 ára, en tókst það þó ekki. Hann var einum sentímetra frá Íslandsmetinu í langstökki í þessum aldursflokki. Tobias Þórarinn vann spjókastið, kastaði 39,62 metra, langstökkið, þar sem hann stökk 6,54 metra, og 100 metra grindahlaupið á 14,04 sekúndum. Hann er Íslandsmeistari og setti Íslandsmet í fimmtarþraut drengja.
Tobias Þórarinn Matharel, Íslandsmeistari í fimmtarþraut 15 ára drengja, og Jón Friðrik Benónýsson þjálfari.
Garðar Atli Gestsson varð annar í fimmtarþrautinni. Hann náði öðru sæti í tveimur greinum, kastaði 38,99 metra í spjótkasti og 33,24 metra í kringlukasti. Kristófer Máni Sigurðsson varð þriðji í fimmtarþrautinni. Hann vann kringlukastið með kasti upp á 38,77 metra og er á mörkunum að komast í unglingalandsliðið í þeirri grein. Hreggviður Örn Hjaltason varð fjórði í fimmtarþrautinni. Hann vann 800 metra hlaupið á 2:27,92 mínútum og varð annar í langstökki með stórbætingu, stökk 5,25 metra.
Anna Berglind Pálmadóttir varð í 2. sæti í 10 km hlaupi á braut á tímanum 38:11,95 mínútum.
Anna Berglind Pálmadóttir, lengst til vinstri, náði 2. sæti í 10 km hlaupi.
Sjö gullverðlaun í eldri flokkum
Tvær kempur frá UFA sópuðu saman gullverðlaunum, komu heim með samtals sjö slík. Unnar Vilhjálmsson, sem starfar meðal annars sem þjálfari hjá UFA, keppti í aldursflokknum 60-64ra ára og varð Íslandsmeistari í þremur greinum. Hann vann kúluvarpið með kasti upp á 11,16 metra, kringlukastið með kasti upp á 39,10 metra og spjótkastið með kasti upp á 34,42 metra.
Tvær kempur frá UFA sópuðu saman gullverðlaunum, komu heim með samtals sjö slík. Unnar Vilhjálmsson, sem starfar meðal annars sem þjálfari hjá UFA, keppti í aldursflokknum 60-64ra ára og varð Íslandsmeistari í þremur greinum. Hann vann kúluvarpið með kasti upp á 11,16 metra, kringlukastið með kasti upp á 39,10 metra og spjótkastið með kasti upp á 34,42 metra.
Ágúst Bergur Kárason keppti í aldursflokknum 50-54ra ára og setti Íslandsmet í sínum aldursflokki í 400 metra hlaupi á tímanum 57,05 sekúndur og 300 metra grindahlaupi á tímanum 51,63 sekúndur. Hann vann einnig 100 metra hlaupið á 12,73 sekúndum og 200 metra hlaupið á 26,52 sekúndum.
Sannarlega glæsilegur árangur hjá keppendum úr röðum UFA, jafnt þeim yngri og eldri.
Kampakátar UFA-kempur komu heim með sjö gullverðlaun, Unnar Vilhjálmsson og Ágúst Bergur Kárason.