„Raðgifting“ í boði á Valentínusardaginn
![](/static/news/lg/bitlaprestarnir-bj5a0533.jpg)
Á Valentínusardaginn, 14. febrúar næstkomandi, ætla prestarnir á Akureyri að leiða hesta sína saman og bjóða upp á svokallaða raðgiftingu. Athöfnin, eða réttara sagt; athafnirnar, fara fram í Glerárkirkju og það verða þau Sindri Geir Óskarsson, Jóhanna Gísladóttir, Hildur Björk Hörpudóttir, Aðalsteinn Þorvaldsson og Hildur Eir Bolladóttir sem gefa fólk saman á rómantísku færibandi yfir daginn. Sindri Geir og Jóhanna hittu blaðamann Akureyri.net til þess að segja nánar frá.
Þónokkur pör búin að grípa boltann
„Hugmyndin að raðgiftingum á Valentínusardag er ekki glæný, en það er til dæmis hefð í norskum kirkjum,“ segir Sindri Geir. „Þetta hefur líka verið gert hérlendis. Fyrir sunnan hafa stundum verið settar upp raðgiftingar á einhverjum flottum dagsetningum. Það hefur alltaf verið vel sótt, og í dag, þegar það er slétt vika í Valentínusardaginn, erum við búin að fá 10 fyrirspurnir.“ Jóhanna bendir á að það þurfi að hafa samband sem fyrst ef fólk vill taka þátt, en það er ekki þannig að það verði hægt að rúlla við á daginn sjálfan og láta pússa sig saman. Þetta er ekki eins og að fá sér borgara í lúgu.
Yngsta parið er á þrítugsaldri og það elsta er um sextugt
„Það er aðallega það, að það þarf að hafa pappírana í lagi,“ segir Jóhanna. „Það er sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum sem gefur út alla löglega pappíra og eins og staðan er í dag, liggur rafræna kerfið niðri, þannig að þetta tekur lengri tíma en ella.“ Sýslumaður þarf að vera búinn að stimpla alla pappíra fyrir daginn, þannig að prestarnir ítreka nauðsyn þess að vera tímanlega í því ef að fólk vill láta gefa sig saman á föstudaginn kemur. „Ég hugsa að það væri öruggast að láta til skarar skríða í síðasta lagi á þriðjudaginn,“ bætir Sindri við.
Athöfnin fer fram í Glerárkirkju. Vonandi verða veðurguðirnir í betra skapi en undanfarna viku. Mynd: Facebook
Skemmtilegur dagur fyrir sérana líka
„Þau sem hafa sent okkur fyrirspurnir, eru á öllum aldri,“ segir Sindri Geir. „Eitt parið er búið að vera saman í 35 ár og þetta var löngu tímabært, að þeirra sögn. Yngsta parið er á þrítugsaldri og það elsta er um sextugt. Það er því flott breidd í þessu og ég held að það verði rosalega gaman hjá okkur prestunum. Við notum öll sama formið þannig séð, en það verður gaman að fylgjast með hvort öðru og gera þetta saman.“ Jóhanna tekur undir þetta og segir að það verði mikil stemning.
„Það verður skemmtileg stemning í anddyrinu, en við ætlum að hafa myndabás fyrir hjónakornin og bjóða upp á freyðivín. Áfengt og óáfengt,“ segir Jóhanna. „Svo verður svona lítil tveggja manna brúðkaupsterta fyrir öll pörin. Við mælum svo með því að ef fólk býður gestum, að hópurinn sé að koma og fara svona nokkurnvegin á slaginu, af því að hver athöfn verður í mesta lagi fimmtán mínútur og svo kemur næsti.“ Fyrirkomulagið verður þannig, að það verða tvær athafnir á hverri klukkustund, þannig að þó að athöfnin sjálf sé ekki nema korter, fær fólk eftir sem áður svolítið andrými til þess að nýta myndabásinn og skála fyrir deginum.
Lágstemmd brúðkaup að færast í aukana
„Þó að hlutirnir séu léttir og skemmtilegir, þýðir ekki að það verði ekki hátíðlegt líka,“ segir Jóhanna. Sindri tekur undir það og bæði minnast á að þeirra upplifun af þróun hjónavígslu sé á þá leið, að stórar og íburðarmiklar athafnir séu á undanhaldi. „Fólk er farið að vilja hafa þetta lágstemmdara og innilegra. Kirkjan gengur í takt við það.“ Sindri bendir á að pressan á að halda brúðkaup með glæsibrag og vera í fínum, hvítum kjól komi ekki frá kirkjunni. „Það er eitthvað samfélagslegt. Ég hef heyrt frá fólki, að þau hafi bara skellt sér til Sýslumanns í giftingu, af því að þau vildu ekki gera mikið úr þessu. Þá bendi ég á að þau hefðu getað komið á skrifstofuna til mín, þess vegna, og við hefðum getað gert þetta þar. Stærðin á athöfninni er alltaf ákvörðun brúðhjónanna, líka innan kirkjunnar.“
Það er heilmikil fegurð í þessu lágstemmda
„Þetta er náttúrlega fyrst og fremst löggjörningur,“ segir Jóhanna. „Eini munurinn er að við erum í kirkjunni og við óskum fólki Guðs blessunar á þessum tímamótum, fyrir þau, fjölskylduna og heimilið. Talandi um lög, þá er það þannig að í lagaumhverfinu er fólki mismunað, sambúðarfólk stendur giftu fólki ekki jafnfætis ef eitthvað kemur upp á. Ungt fólk í dag er sem betur fer mjög meðvitað um þetta að þau skoða þessi mál þegar búið er að eignast börn og kaupa hús jafnvel. Þá er hentugra að vera giftur á pappír.“
Jóhanna bendir á að mörg pör leitist eftir að gifta sig á þessum forsendum, og þó að giftingin hafi átt sér stað á lágstemmdan hátt, sé ekkert sem standi í vegi fyrir því að fólk haldi stórt partí einhverntíman seinna þegar betur stendur á.
Fólk kemur til athafnarinnar eins og það er klætt. Vinnugallinn eða hvíti kjóllinn, eða allt þar á milli. Mynd: Unsplash/JeremyWong
Rómantíkin er líka í gallabuxunum
„Fólk kemur bara á sínum forsendum,“ segir Sindri Geir, aðspurður um það, hvar rómantíkin sé fólgin í raðgiftingunni. „Fólk má koma í gallabuxunum, skreppa úr vinnunni eða fara í fínu fötin. Parið getur komið án gesta, eða með fullt af fólki með sér. Fólk fær að móta þetta sjálft og velja tónlist, reyndar bara af upptöku.“
„Það er blússandi rómantík fólgin í því einu, að taka frá stund til þess að segja; ég elska þig, ekki bara í dag, heldur ætla ég að gera mitt besta til þess að gera það alla tíð,“ segir Jóhanna. „Það er alveg jafn rómantískt í hádeginu í gallabuxum. Það er heilmikil fegurð í þessu lágstemmda.“
Líka í boði að endurnýja heitin
„Við höfum fengið fyrirspurnir um það, hvort að við bjóðum upp á endurnýjun heita á þessum degi,“ segir Sindri Geir. „Það geta verið ákveðin tímamót að endurnýja heitin, í hjónabandi sem hefur kannski verið langt. Kannski hefur eitthvað gengið á eða fólk hefur farið í sundur tímabundið án þess að skilja. Kannski vill fólk bara taka stund og staðfesta ást sína aftur. Það er í boði að koma á þessum degi og gera þetta, en það þarf að heyra í okkur fyrst, bara upp á að það sé pláss.“ Báðir prestarnir segjast hafa þjónað við athafnir fyrir endurnýjuð heit, það séu svona 1-2 á ári sirka.
„Mér finnst gott að finna að við erum að mæta einhverju fólki með þessum viðburði,“ segir Sindri Geir. „Það er greinilega fólk þarna úti, sem langar að gifta sig en hefur ekki látið verða af því. Þarna er farvegur og fólk er að nýta tækifærið.“
Að lokum, þá ítreka prestarnir mikilvægi þess að heyra í þeim sem fyrst ef áhugi er fyrir því að taka þátt í raðgiftingadeginum.
Sindri Geir tekur við fyrirspurnum á tölvupóstfangið sindrigeir@glerarkirkja.is