Fara í efni
Íþróttir

Veigar og Bryndís Eva Íslandsmeistarar

Veigar Heiðarsson er Íslandsmeistari í höggleik í golfi í piltaflokki 15-21s árs. Mynd: Golfsamband Íslands.

Golfklúbbur Akureyrar eignaðist um helgina tvo Íslandsmeistara í yngri flokkum í golfi. Veigar Heiðarsson vann Íslandsmeistaratitil í höggleik í flokki 17-21s árs og Bryndís Eva Ágústsdóttir í höggleik í flokki 13-14 ára. 

Lokahringurinn í piltaflokknum var æsispennandi, en þar átti Veigar í höggi við nýkrýndan Íslandsmeistara í fullorðinsflokki, Loga Sigurðsson úr GS. Þeir léku frábært golf á lokahringnum og réðust úrslitin ekki fyrr en á 18. holu á lokadegi. Veigar náði fimm fuglum í röð á síðustu fimm holunum og tryggði sér þannig Íslandsmeistaratitilinn, en Logi var hársbreidd frá því að jafna skorið og knýja fram bráðabana. Pútt Loga fyrir erni á 18. flötinni var hársbreidd frá því að fara ofan í. 


Verðlaunahafarnir í höggleik í flokki 15-21s árs: Logi Sigurðsson (2), úr Golfklúbbi Suðurnesja, Veigar Heiðarsson (1), úr Golfklúbbi Akureyrar, og Svanberg Addi Stefánsson (3), úr Golfklúbbnum Keili. Mynd: GSÍ.

Veigar lauk keppni á 11 höggum undir pari samtals, eða 199 höggum, en Logi var annar á 200 höggum. Veigar spilaði hringina þrjá á 66, 69 og 64 höggum. Skúli Gunnar Ágústsson úr Golfklúbbi Akureyrar endaði í 7. sæti á 216 höggum.

Nánar má lesa um mótið á vef Golfsambands Íslands.

Bryndís Eva Ágústsdóttir vann öruggan sigur í stúlknaflokki 13-14 ára, spilaði samtals á samtals átta höggum yfir pari, eða 224 höggum alls, sjö höggum minna en næsti keppandi. Bryndís Eva spilaði hringina þrjá á 78, 69 og 77 höggum. Þær Lilja Maren Jónsdóttir og Björk Hannesdóttir úr golfklúbbi Akureyrar enduðu í 7. og 9. sæti á 244 og 245 höggum. 


Íslandsmeistarinn Bryndís Eva Ágústsdóttir úr Golfklúbbi Akureyrar ásamt þeim Evu Fanneyju Matthíasdóttur (2) úr GKG og Margréti Jónu Eysteinsdóttur (3) úr GR. Mynd: GA/GSÍ.

Glæsilegt myndasafn Golfsambands Íslands frá mótinu:

Golfklúbbur Akureyrar átti 14 keppendur á Íslandsmótunum sem fram fóru í Vestmannaeyjum þar sem keppt var í flokkum 15-16 ára og 17-21s árs, og í Korpunni, þar sem keppt var í 13-14 ára og flokki 12 ára og yngri, um helgina, en nánari upplýsingar um árangur má finna í frétt á vef klúbbsins.