Fara í efni
Íþróttir

Veigar semur við ETSU háskólann í Tennesse

Mynd af vef ETSU háskólans

Veigar Heiðarsson, kylfingurinn stórefnilegi í Golfklúbbi Akureyrar, hefur nám við bandaríska háskólann East Tennessee State University (ETSU)  næsta haust. Hann hefur fengið skólastyrk í fjögur ár og leikur á námstímanum með golfliði skólans.

„Veigar hafði skoðað nokkra háskóla í Bandaríkjunum en ákvað á endanum að semja við ETSU sem er öflugur háskóli í golfinu,“ segir á vef Golfklúbbs Akureyrar. Þar kemur fram að Guðmundur Ágúst Kristjánsson, sem varð Íslandsmeistari í golfi 2019, spilaði fyrir skólann frá 2012-2016.

Einn sá besti í Evrópu

Aaron O'Callaghan, yfirþjálfari golfliðs karla í ETSU, segir á vef skólans að Veigar sé orðinn einn besti ungi kylfingur í Evrópu. Hann hafi verið meðvitaður um getu Íslendingsins unga í nokkur ár og meðan á samningaviðræðum skólans og Veigars stóð hafi komið í ljós að hann falli mjög vel að framtíðarsýn skólans. O'Callaghan segist spenntur að fá svo hæfileikaran nýliða til liðs við skólann.

Veigar, sem verður 18 ára eftir nokkra daga, hóf barnungur að stunda golfíþróttina og skyldi engan undra. Faðir hans, Heiðar Davíð Bragason,  hefur lengi starfað sem golfkennari og er nú yfirþjálfari hjá Golfklúbbi Akureyrar. Heiðar Davíð, sem er frá Blönduósi, varð Íslandsmeistari í golfi árið 2005 þegar hann var í golfklúbbnum Kili í Mosfellsbæ

Hér má sjá heimasíðu hjá ETSU golf