Fara í efni
Íþróttir

Þróun byggðar í Vaðlaheiði í brennidepli

Sveitarstjórnir Eyjafjarðarsveitar og Svalbarðsstrandarhrepps vinna um þessar mundir saman að því að móta heildstæða stefnu um þróun byggðar í Vaðlaheiði til framtíðar. Opinn kynningarfundur vegna verkefnisins fer fram í matsal Hrafnagilsskóla í kvöld kl. 20. Þar munu fulltrúar beggja sveitarfélaga og aðstandenda verkefnisins kynna skipulagstillöguna og svara fyrirspurnum um málið frá fundargestum.

Í desember samþykktu sveitarstjórnirnar að vísa skipulagstillögu fyrir rammahluta Aðalskipulags Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 og Aðalskipulags Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 í kynningarferli, en tillagan felur í sér breytingu á aðalskipulagi beggja sveitarfélaga. Skipulagstillagan Þróun byggðar í Vaðlaheiði, vinnslutillaga 19. desember 2023 – unnin af Landslagi fyrir sveitarfélögin, hefur verið í kynningarferli frá 10. janúar og gefst þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta kostur á að koma athugasemdum á framfæri til 14. febrúar.

Horft er á skipulagssvæðið sem eina heild þrátt fyrir að um tvö sveitarfélög sé að ræða. Markmið skipulagsins er að skipuleggja aðlaðandi og búsetuvæna byggð með dreifbýlisyfirbragði sem falli vel að náttúrulegu umhverfi svæðisins. Stefnt er að því að rammahluti aðalskipulags verði forskrift fyrir gerð deiliskipulagsáætlana og uppbyggingu á svæðinu til framtíðar,“ segir meðal annars í frétt sveitarfélaganna um málið.

Aukin ásókn í lóðir

Þetta skref sem sveitarfélögin eru að stíga núna er beint framhald af aukinni spurn eftir lóðum fyrir íbúðárhús og frístundahús í Vaðlaheiði þar sem nú þegar hafa risið þyrpingar á þegar skilgreindum landnotkunarreitum og ásókn í fasta búsetu aukist, meðal annars vegna nálægðar við Akureyri.

Loftmynd af svæðinu sem skipulagstillagan nær til. Skjáskot úr skipulagstillögunni sem unnin er af Landslagi. 

Skipulagssvæðið sem umrædd tillaga tekur til er 1.090 hektarar að stærð. Það afmarkast að austanverðu við 200 metra hæðarlínu innan Eyjafjarðarsveitar og 300 metra hæðarlínu innan Svalbarðsstrandarhrepps. Skipulagsmörkin að vestanverðu eru meðfram strandlengju og Eyjafjarðarbrayt eystri. Norðurmörk í Svalbarðsstrandarhreppi miða við afmörkun landbúnaðarlands L2 í aðalskipulagi sem nær norður að íbúðarsvæði ÍB22 í landi Heiðarholts. Suðurmörkin í Eyjafjarðarsveit miða við Kúalæk og landnotkunarreit fyrir íbúðarsvæði ÍB16 í landi Leifsstaða.

Meðal þess sem unnið hefur verið til kynningar á þessum hugmyndum er rúmlega hálftíma langt myndband.