Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar sömdu saman eftirminnilegt ævintýri

Allt ætlaði um koll að keyra í Boganum þegar Þórsarar náðu loks forystu, 3:2. Þá var komið í uppbótartíma. Leikmenn og stuðningsmenn Þórs fagna hér þriðja markinu. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar sigruðu Aftureldingu 4:2 í ótrúlegum leik í Boganum í dag, í 2. umferð Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu.

Fyrir mót var Aftureldingu spáð efsta sæti deildarinnar og Þórsurum öðru sæti en bæði lið gerðu aðeins jafntefli í fyrstu umferð svo mikið var í húfi. Áhorfendur voru varla sestir þegar Afturelding gerði fyrsta mark leiksins og gestirnir komust í 2:0 á áttundu mínútu. Lygileg byrjun en þótt Þórsarar hafi í raun gefið gestunum tvö mörk í forgjöf gáfust þeir ekki upp og uppskáru sigur. Þeir eru því með fjögur stig eftir tvo leiki.

  • Fyrra mark Aftureldingar kom eftir horn, Aron Birkir markvörður Þórs ætlaði að kýla boltann í burtu en hitti hann ekki en Georg Bjarnason, sem er við hlið Arons á myndinni, kom boltanum í netið.

  • Andri Freyr Jónsson kom gestunum í 2:0 eftir aðeins átta mínútur. Komst einn inn fyrir vörn Þórs eftir slæm mistök Ýmis vinstri bakvörður og skoraði undir Aron Birki sem kom út á móti.
  • Líf færðist í Bogann þegar 19 mín. voru liðnar þegar einn gestanna braut á Þórsara fyrir utan vítateig og Birkir Heimisson skoraði beint úr aukaspyrnunni; þrumaði boltanum  í þverslá og inn. 

  • Framherjinn Fannar Daði Malmquist Gíslason fór meiddur af velli eftir tæpan hálftíma. Hann virtist stíga illa niður og fann fyrir sársauka í hægra hnénu. Krossband slitnaði í sama hné fyrir nokkrum misserum en vonandi eru meiðslin nú ekki alvarleg. Á myndinni hugar Stefán Ingi Jóhannsson að Fannari, Aron Ingi Magnússon til vinstri.
  • Ekki voru liðnar nema fjórar mínútur af seinni hálfleik þegar Gunnar Bergmann Sigmarsson, varnarmaður Aftureldingar, var rekinn af velli. Framherjinn ungi, Ingimar Arnar Kristjánsson, var sloppinn einn í gegn, Gunnar braut á honum og fékk réttilega að líta rauða spjaldið.

Eins og gefur að skilja sóttu Þórsarar meira eftir þetta, gestirnir hörfuðu og reyndu að verjast sem best þeir gátu. Þeir voru reyndar ekki í neinum vandræðum fyrst um sinn en eftir að leikmenn Þórs róuðust og áttuðu sig á þolinmæði er dyggð við þessar aðstæður, jukust vandræði Mosfellinga.

  • Korter var eftir þegar Þórsarar jöfnuðu. Eftir að þeir höfðu haldið boltanum drjúga stund fékk varnarmaðurinn sendi varnarmaðurinn Ragnar Óli Ragnarsson frá hægri kanti inn á markteiginn þar sem hinn stórefnilegi Egill Orri Arnarsson var dauðafrír og skallaði boltann laglega í markið. Þetta er fyrsta mark Egils Orra fyrir Þór í deildarleik. Hann er nýorðinn 16 ára og heldur á vit ævintýra atvinnumennskunnar 1. júlí; hefur þá störf sem leikmaður Midtjylland í Danmörku.
  • Á myndinni fagnar Egill Orri, lengst til vinstri, Kristófer Kristjánsson hleypur til hans en Rafael Victor nær strax í boltann. 
  • Þegar komið var í uppbótartíma var annar leikmaður Aftureldingar rekinn út af. Oliver Bjerrum Jensen braut á Sigfúsi Fannari Gunnarssyni  sem var að komast inn í vítateigin hægra megin. Sigurður dómari sýndi Jensen gula spjaldið og þar sem það hafði gerst áður í leiknum fylgdi það rauða með í kaupabæti í þetta sinn. Þar með voru gestirnir orðnir tveimur færri.
  • Birkir Heimisson, sem lék gríðarlega vel á miðjunni hjá Þór í dag, tók aukaspyrnuna, þrumaði boltanum inn á markteig þar sem framherjinn Rafael Victor kom honum rétta leið, umkringdur varnarmönnum – sneiddi boltann snyrtilega í marknetið! Þórsararnir þar með komnir yfir, 3:2, og allt ætlaði um koll að keyra í Boganum. Stuðningsmenn Þórs höfðu skapað frábæra stemningu og lætin jukust enn við markið; fólk sló því föstu að um sigurmark væri að ræða í „toppslag“ deildarinnar skv. spá sérfræðinganna sem nefnd var í upphafi.

Mynd: Ármann Hinrik

Hafi upphafsmínútur leiksins verið lygilegar var lokakaflinn ævintýri af dýrari gerðinni. Leikmenn og stuðningsmenn Þórs fögnuðu þriðja markinu ógurlega, eins og gefur að skilja, en voru þó ekki búnir að syngja sitt síðasta að þessu sinni.

  • Strax eftir að fagnaðarlátunum linnti og leikurinn hófst á ný sóttu Þórsarar enn og aftur, Rafael Victor komst upp að endamörkum vinstra megin og sendi knöttinn fyrir markið. Þar var Sigfús Fannar Gunnarsson óvaldaður og skoraði auðveldlega. Sigfús leysti Fannar Daða af hólmi þegar hann meiddist í fyrri hálfleik og óhætt að segja að varamaðurinn kröftugi hafi sett mark sitt á leikinn!

Að leikslokum fögnuðu heimamenn skiljanlega vel og lengi. Þrjú dýrmæt stig bættust í safnið gegn mjög góðu liði Aftureldingar. Gestirnir léku vel og verða án nokkurs vafa í baráttu um sæti í efstu deild að ári, en áttu erfitt uppdráttar þegar á leið í dag.

Gott var að sjá að þótt Þórsarar lentu í sterkum mótvindi á upphafs andartökum leiksins efldust þeir er á leið og gleðin var við völd í lokin. Þeir verða þó að hafa hugfast að best er að mæta vakandi til leiks; ekki er víst að alltaf gerist ævintýr.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna