Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA steinlá fyrir Breiðabliki í Kópavogi

Sigurmark Breiðabliks (2:1) á lokasekúndum undanúrslita bikarkeppninnar á Þórsvellinum í sumar. Spennan var ekki mikil í viðureign liðanna í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA steinlá fyrir Breiðabliki í Kópavogi í dag í þriðju umferð efri hluta Bestu deildar kvenna í knattspyrnu. Blikar byrjuðu með látum, Samantha Smith gerði þrjú mörk á fyrstu 15 mínútunum og þegar fyrri hálfleik lauk var staðan 6:0. Sandra María Jessen minnkaði muninn snemma í seinni hálfleik og þar við sat. Þetta var 22. mark Söndru Maríu í deildinni í sumar og er hún langmarkahæst sem fyrr.

Óþarft er að hafa mörg orð um leikinn. Tölurnar tala sínu málinu, yfirburðir toppliðs Blika voru gríðarlegir. 

Breiðablik er efst í deildinni með 57 stig og Valur, sem vann FH 2:0 í dag, hefur 56 stig. 

Þór/KA er í þriðja sæti með 33 stig eins og Víkingur, sem gerði jafntefli við Þrótt á föstudaginn, en Stelpurnar okkar eru með betri markahlutfall. Þróttur og FH með 25 stig í fimmta og sjötta sæti.

Tvær umferðir eru eftir. Þór/KA mætir Þrótti næst á útivelli og fær síðan Víking í heimsókn í síðustu umferð, laugardaginn 5. október. 

Í næstu umferð leikur Breiðablik við FH og Valur mætir Víkingi og toppliðin mætast svo í síðustu umferðinni; Valur tekur á móti Breiðabliki að Hlíðarenda 5. október.

Umfjöllun mbl.is um leik Breiðabliks og Þórs/KA

Umfjöllun fótbolta.net um leik Breiðabliks og Þórs/KA

Staðan í deildinni