Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA hefur samið við bandarískan markvörð

Bandarískur markvörður, Shelby Money, er á leið til kvennaliðs Þórs/KA í knattspyrnu. Stjórn Þórs/KA hefur samið við hana, unnið er að frágangi og umsóknum varðandi félagaskipti og leikheimild og vonast til að hún verði klár í leikmannahópinn fyrir fyrsta leik í Bestu deildinni þann 21. apríl. Þetta kemur fram á vef Þórs/KA.

Shelby er fædd 1997 og verður 27 ára í næsta mánuði. Hún er frá New Jersey þar sem hún spilaði með knattspyrnuliði Rowan-háskólans á árunum 2015-2018 við góðan orðstír.

„Að loknu háskólanámi hefur hún komið við hjá sterkum liðum, samdi við Racing Louisville FC árið 2021 og var nú síðast hjá Gotham FC. Shelby hlakkar til að takast á við ný verkefni,“ segir í tilkynningunni. „Ég er þakklát fyrir tækifærið að prófa eitthvað nýtt og halda áfram að byggja upp ferilinn. Þór/KA vakti áhuga minn þar sem klúbburinn virðist eins og ein stór fjölskylda og ég hlakka til að komast inn í hópinn og kynnast fólkinu,“ segir hún um komu sína til félagsins.

Nýir leikmenn lofa góðu

Á vef Þórs/KA segir ennfremur í dag:

Nokkrar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Þórs/KA frá því í fyrra, en þegar upp er staðið verða þær líklega færri en oft áður á undanförnum árum. Þór/KA hefur nú samið við þrjá erlenda leikmenn í stað þeirra þriggja sem spiluðu fyrir félagið í fyrra, en þær Dominique Randle, Melissa Lowder og Tahnai Annis hafa farið annað, ásamt Jakobínu Hjörvarsdóttur sem gekk til liðs við Breiðablik.

Nýir leikmenn sem Þór/KA hefur gert samninga við eru Lara Ivanuša (Slóvenía), Lidija Kuliš (Bosnía-Herzegovína) og Shelby Money (Bandaríkin). Þær Lara og Lidija hafa nú þegar komið við sögu í nokkrum leikjum með liðinu í Lengjubikarnum og lofa góðu um framhaldið.