Íþróttir
Þór/KA getur tryggt sæti í úrslitaleiknum
23.03.2024 kl. 12:30
Leikmenn Þórs/KA fagna marki í Lengjubikarkeppninni í vetur. Mörk liðsins urðu alls 22 í riðlinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Þór/KA getur tryggt sér farseðilinn í úrslitaleik Lengjubikars kvenna í knattspyrnu í dag þegar Stelpurnar okkar taka á móti liði Breiðabliks í undanúrslitum í Boganum. Flautað verður til leiks kl. 14:30.
Þór/KA sigraði í riðli 2 og Breiðablik varð í öðru sæti í riðli 1 og Þór/KA fær því heimaleik í undanúrslitum sem sigurvegari riðils. Bæði lið unnu fjóra leiki og töpuðu einum í riðlakeppni. Þau unnu fjóra fyrstu en töpuðu þeim síðasta, Þór/KA fyrir Stjörnunni og Breiðablik fyrir Val. Markatala Þórs/KA er 22:5 en 14:5 hjá Blikunum.
Valur og Stjarnan mætast í hinum undanúrslitaleiknum á mánudaginn og úrslitaleikurinn er á dagskrá um næstu helgi, laugardaginn 30. mars.