Fara í efni
Íþróttir

Stefni á toppbaráttu á Íslandsmótinu

Lárus Ingi Antonsson eftir að hann setti niður pútt á 18. og síðustu holu vallarins á laugardag og gat fagnað sigrinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Lárus Ingi Antonsson sigraði af miklu öryggi í meistaraflokki á Akureyrarmótinu í golfi sem lauk um helgina og Akureyri.net hefur fjallað ítarlega um síðustu daga. Hann lék hringina fjóra á 277 höggum, sjö undir pari vallarins, sem er mótsmet eftir að vellinum var breytt töluvert fyrir nokkrum árum.

Meistarinn ungi lék frábærlega á þriðja degi mótsins, fór þá holurnar 18 á fimm höggum undir pari og lokahringinn fór hann á einu undir pari. „Ég var enn í fuglagírnum,“ sagði hann brosandi eftir að sigurinn var í höfn. Hann tók nefnilega þannig til orða í viðtali við Akureyri.net eftir þriðja keppnisdag að hann hefði dottið í fuglagírinn, fékk þá sex fugla – fór sem sagt sex brautir á einu höggi undir pari. „Í dag var ég kominn með fimm fugla eftir 10 holur en ég slakaði aðeins á í restina, þreytan var farin að segja til sín eftir að maður hafði spilað fjóra hringi á fjórum dögum.“ Sigurinn var hvort sem er mjög öruggur. Næsti maður, Örvar Samúelsson, var 15 höggum á eftir, lék á 292, og Tumi Hrafn Kúld varð þriðji á 296 höggum.

Lárus Ingi, sem varð einnig Akureyrarmeistari á síðasta ári, hafði 13 högga forystu fyrir síðasta daginn en segir það ekki hafa verið erfitt. „Ég hugsaði bara ekkert um það. Síðasti hringurinn var eins og allir aðrir. Ég var með leikplan og fór eftir því; mér hafði gengið vel svo það var engin ástæða til að breyta neinu. Ég spilaði áfram gott golf,“ sagði hann um síðsta daginn. „Ég er mjög sáttur. Að leika sjö undir pari er mjög gott. Nú verður Íslandsmótið hér í ágúst og þá er stefnan að spila eins og ég hef gert síðustu daga. Það ætti að koma mér í toppbaráttunni. Það er að minnsta kosti að sjálfsögðu stefnan.“

Til hamingju! Síðasta hollið hefur lokið keppni; frá vinstri: Tumi Hrafn Kúld, Lárus Ingi Antonsson og Örvar Samúelsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Örvar Samúelsson, Akureyrarmeistari 2019, slær af 1. teig á síðasta keppnisdegi. Hann varð í öðru sæti. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Tumi Hrafn Kúld, Akureyrarmeistari 2018, slær á 2. braut á síðasta keppnisdagi um helgina. Tumi varð í þriðja sæti. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson. 

Akureyrarmeistarinn, Lárus Ingi Antonsson, slær af 1. teig á laugardaginn, síðasta degi Akureyrarmótsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.