Markaveisla og sigur hjá SA í fyrsta leik

SA tók forystu í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí með 7-4 sigri á liði Skautafélags Reykjavíkur í fyrsta leik í Skautahöllinni á Akureyri í dag.
Óhætt er að segja að úrslitaeinvígið hafi byrjað fjörlega og sannarlega létu mörkin ekki á sér standa, áhorfendum til mikillar skemmtunar.
Leikmenn og stuðningsmenn SA höfðu beðið óþarflega lengi eftir því að hefja úrslitarimmuna, en áhorfendur að leiknum þurftu ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu. Unnar Hafberg Rúnarsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir SA eftir 81 sekúndu. Stuðningsmenn gestanna þurftu svo reyndar ekki að bíða mjög lengi heldur því Níels Hafsteinsson jafnaði þegar tæpar sex mínútur voru liðnar.
Níels Hafsteinsson skoraði sitt annað mark fyrir SR eftir fallegt samspil og náði forystunni fyrir gestanna skömmu eftir miðjan fyrsta leikhlutann, en ekki löngu síðar jafnaði Atli Sveinsson með laglegu skoti. Gunnar Arason náði svo forystunni fyrir SA þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af fyrsta leikhlutanum. Markaveisla í uppsiglingu og enn eftir meira en tveir leikhlutar af þremur.
Áframhald veislunnar, mark á lokasekúndu
Heldur hægði á markaveislunni í öðrum leikhluta, og kom sjötta mark leiksins ekki fyrr en tæpar 14 mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta. Kári Arnarsson skoraði þá mark sem leikmenn SA voru ekki sáttir við og varð úr rekistefna milli dómara og fyrirliða um lögmæti marksins, en það stóð.
Kári Arnarsson, fyrirliði SR fyrir miðju, jafnaði í 3-3 þegar nokkuð var liðið á annan leikhlutann. Þorgils Eggertsson (40) átti stoðsendinguna og Sölvi Atlason fagnar með félögum sínum. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.
Það leið þó ekki á löngu þar til SA tók forystuna aftur þegar Unnar Hafberg Rúnarsson skoraði sitt annað mark. SA hafði þá leikið fimm gegn þremur eftir refstingar á leikmenn SR, en fjórða markið kom þó ekki fyrr en aftur var orðið jafnt í liðunum. Greinilega búið að blása aftur til markaveislu því aðeins um 46 leiksekúndum eftir fjórða markið skoraði Jóhann Már Leifsson fimmta mark SA.
Og úr því veislan var hafin að nýju nýttu leikmenn SA lokasekúndurnar vel, eftir refsingu á leikmann SR, og Gunnar Arason skoraði laglegt mark þegar um hálf sekúnda var eftir af leikhlutanum. Þriggja marka forysta SA fyrir lokaþriðjunginn.
Gunnar ARason, Jóhann Már Leifsson og Orri Blöndal fagna marki Gunnars sem hann skoraði þegar um hálf sekúnda var eftir af öðrum leikhlutanum. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.
Tíminn vann ekki með gestunum og það var ekki fyrr en rétt rúmar sex mínútur voru eftir af leiknum sem SR náði að minnka muninn aftur í tvö mörk þegar þeir voru einum fleiri vegna refsingar á leikmann SA.
Leikmenn SA vörðust vel eftir þetta og kláruðu svo dæmið endanlega þegar Jóhann Már Leifsson skoraði sitt annað mark og sjöunda mark SA á lokamínútunni, komst þá í gegnum vörn SR, lék á markvörðinn og kom pökknum í netið.
Jóhann Már Leifsson skautaði upp miðjuna, tók létt dansspor þegar hann nálgaðist markið, lék á markvörðinn og skoraði sjöunda mark SA í dag. Myndir: Rakel Hinriksdóttir.
Jóhann Már fagnar markinu ásamt Baltasar Hjálmarssyni. Sigurinn í fyrsta leik endanlega tryggður. Myndir: Rakel Hinriksdóttir.
Sigurinn í höfn og lokatölur 7-4. SA komið með forystu í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.
- SA - SR 7-4 (3-2, 3-1, 1-1)
Leikskýrslan
Gangur leiksins:
- 1-0 - Unnar Hafberg Rúnarsson (01:21)
- 1-1 - Níels Hafsteinsson (05:45). Stoðsending: Þorgils Eggertsson.
- 1-2 - Níels Hafsteinsson (11:04). Stoðsending: Alex Sveinsson, Sölvi Atlason.
- 2-2 - Atli Sveinsson (12:31). Stoðsending: Róbert Hafberg.
- 3-2 - Gunnar Arason (16:08). Stoðsending: Uni Blöndal, Baltasar Hjálmarsson.
- - - - 3-3 - Kári Arnarsson (33:42). Stoðsending: Þorgils Eggertsson.
- 4-3 - Unnar Hafberg Rúnarsson (37:42). Stoðsending: Róbert Hafberg, Atli Sveinsson.
- 5-3 - Jóhann Már Leifsson (38:28). Stoðsending: Uni Blöndal, Gunnar Arason.
- 6-3 - Gunnar Arason (39:59). Stoðsending: Baltasar Hjálmarsson, Orri Blöndal.
- - - - 6-4 - Kári Arnarsson (53:49). Stoðsending: Eduard Kascak.
- 7-4 - Jóhann Már Leifsson (59:09). Stoðsending: Baltasar Hjálmarsson, Uni Blöndal.
Annar leikur liðanna verður í Skautahöllinni í Laugardal þriðjudagskvöldið 8. apríl og hefst leikurinn kl. 19:00.
Leik dagsins var streymt á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands og mögulegt að horfa á hann í spilaranum hér að neðan.