Fara í efni
Íþróttir

Sigtryggur vann ... 1946, fyrstur Akureyringa

Nokkrir af bestu kylfingum Akureyrar á fyrri hluta sjötta áratugarins, við gamla golfskálann við Þórunnarstræti. Frá vinstri: Birgir Sigurðsson, Íslandsmeistari 1952 sem flutti síðar til Kanada, Hermann Ingimarsson, Íslandsmeistari 1955, Sigtryggur Júlíusson, Íslandsmeistari 1946 og Gunnar Konráðsson – Nunni Konn.

Akureyringar hafa 20 sinnum eignast Íslandsmeistara í golfi, alla í karlaflokki. Það var Sigtryggur Júlíusson sem braut ísinn þegar hann varð Íslandsmeistari 1946, á gamla golfvellinum við Þórunnarstræti á Akureyri. Í dag hefst 80. Íslandsmót kylfinga á Jaðarsvelli og því við hæfi að rifja upp meistaratitla Akureyringa.

  • 50 ár eru síðan Björgvin Þorsteinsson varð fyrst Íslandsmeistari í fullorðinsflokki. Hann er sigursælasti Akureyringurinn, hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari; fyrst 1971, Björgvin missti naumlega af sigri 1972 og varð í öðru sæti, en sigraði svo fimm ár í röð, 1973 til 1977. Enginn hefur leikið það eftir.
  • Magnús Guðmundsson varð fimm sinnum Íslandsmeistari, fyrst 1958 og síðan var hann ósigrandi fjögur ár í röð, 1963 til 1966. Magnús, sem flutti um þetta leyti til Bandaríkjanna, var einnig besti skíðamaður Íslands á sínum tíma.
  • Frægasti sigur Magnúsar Guðmundssonar á Íslandsmóti var 1964 í Vestmanneyjum þegar hann lék á 10 höggum undir pari vallarins og sigraði með fáheyrðum yfirburðum. Magnús lék á 270 höggum og vann með 25 högga mun! Næstu tveir léku á 295.
  • 60 ár eru síðan Gunnar heitinn Sólnes varð Íslandsmeistari hið fyrra skipti, 1961. Hann fagnaði aftur sigri á Íslandsmótinu 1967.
  • 20 ár síðan Akureyringur varð síðast Íslandsmeistari, Sigurpáll Geir Sveinsson árið 2002, þegar hann vann í þriðja skipti.

Þessir Akureyringar hafa orðið Íslandsmeistarar í golfi. Rauðmerkt ár fór Íslandsmótið fram á Akureyri, til 1963 á gamla golfvellinum við Þórunnarstræti en völlurinn að Jaðri var tekinn í notkun 1970, árið áður en Björgvin sigraði í fyrsta skipti.

2002 Sigurpáll Geir Sveinsson

1998 Sigurpáll Geir Sveinsson

1994 Sigurpáll Geir Sveinsson

1977 Björgvin Þorsteinsson

1976 Björgvin Þorsteinsson

1975 Björgvin Þorsteinsson

1974 Björgvin Þorsteinsson

1973 Björgvin Þorsteinsson

1971 Björgvin Þorsteinsson

1967 Gunnar Sólnes

1966 Magnús Guðmundsson

1965 Magnús Guðmundsson

1964 Magnús Guðmundsson

1963 Magnús Guðmundsson

1961 Gunnar Sólnes

1958 Magnús Guðmundsson

1955 Hermann Ingimarsson

1952 Birgir Sigurðsson

1949 Jón Egilsson

1946 Sigtryggur Júlíusson

Frásögn dagblaðsins Tímans af glæsilegum sigri Magnúsar Guðmundssonar 1964.

Úrklippa úr Morgunblaðinu frá 1973. Björgvin Þorsteinsson varð fyrst meistari tveimur árum áður en hóf þarna fimm ára óslitna sigurgöngu sem enginn hefur leikið eftir.

Akureyrarblaðið Dagur birti þessar fínu myndir af Sigtryggi Júlíussyni og Jóni Egilssyni eftir Íslandsmótið 1946.

Frásögn Vísis af sigri Gunnars Sólnes á Íslandsmótinu 1967 í Grafarholti. Vísir segir að með Gunnari á myndinni sé „aðstoðarkona hans í keppninni, engin önnur en „ungfrú Ísland“, Kolbrún Einarsdóttir.“

Akureyrarblaðið Dagur fjallaði myndarlega um fyrsta Íslandsmeistaratitil Sigurpáls Geirs Sveinssonar af þremur, þegar hann sigraði 1994 á heimavelli. Sigurpáll var 19 ára og lék á níu höggum undir pari. Þetta var fyrsti Íslandsmeistaratitill Akureyringar í 17 ár, Sigurpáll varð síðast meistari 2002 og síðan hefur Akureyringur ekki unnið.