Rakel Sara fór hamförum og gerði 10 mörk í sigri
Íslensku stúlkurnar í handboltalandsliði 19 ára og yngri sigruðu Finna, 30:27, í B-deild Evrópumótsins sem fer fram í Skopje í Norður-Makedóníu þess dagana. Þetta var annar leikur Íslands og fyrsti sigur, áður hafði liðið tapað naumlega fyrir Hvít-Rússum.
Eftir ágæta byrjun íslensku stelpnanna í dag var það finnska liðið sem komst hægt og bítandi fram úr en Stelpurnar okkar stigu á bensíngjöfina á lokamínútum fyrri hálfleiks og voru tveimur mörkum yfir, 17:15, þegar liðin gengu til búningsklefa.
Íslensk liðið hélt áfram að bæta í forskotið í síðari hálfleik og náði mest sex marka forystu, áður en Finnar efldust um allan helming og náðu að minnka muninn niður í eitt mark. Þá voru nokkrar mínútur til leiksloka en með góðum endaspretti unnu íslensku stelpurnar þriggja marka sigur.
Hornamaðurinn frábæri úr KA/Þór, Rakel Sara Elvarsdóttir var gríðarlega góð í dag og gerði 10 mörk.
Mörk íslenska liðsins: Rakel Sara Elvarsdóttir 10, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 7, Bríet Ómarsdóttir 5, Sara Katrín Gunnarsdóttir 3, Katrín Tinna Jensdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 1, Ída Margrét Stefánsdóttir 1 og Emilía Ósk Steinarsdóttir 1.
Ólöf Maren Bjarnadóttir úr KA/Þór varði 10 skot og Ingibjörg Gróa Guðmundsdóttir varði 1 skot.
Næsti leikur íslenska liðsins er gegn Póllandi á fimmtudaginn.