Öruggt á Skaganum, KA í þriðja sætið
KA vann ÍA, 2:0, í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Pepsi Max deildinni, á Akranesi í kvöld. KA-menn hafa þar með unnið fimm af fyrstu sjö leikjunum í deildinni, gert eitt jafntefli og tapað einum – og eru komnir upp í þriðja sæti með 16 stig.
Varnarmaðurinn Dusan Brkovic gerði fyrra markið strax á 11. mínútu og Ásgeir Sigurgeirsson gulltryggði sigurinn með marki á 70. mínútu.
Brkovic kom boltanum í netið af stuttu færi eftir að Hallgrímur Mar Steingrímsson skaut að marki en boltinn fór í varnarmann og breytti um stefnu. Aftur átti Hallgrímur skot að marki þegar Ásgeir skoraði; boltinn hafði viðkomu í varnarmanni, hrökk til Ásgeirs sem snéri laglega af sér varnarmann og sendi boltann laglega í hornið.
Undir lokin sauð upp úr, eftir glórulaust brot Skagamannsins Óttars Bjarna Guðmundssonar á Hallgrími Mar Steingrímssyni. Óttar Bjarni fékk rautt spjald og sömuleiðis Hrannar Björn, bróðir Hallgríms, sem var einn liðsstjóra KA í leiknum. Það fauk heldur betur í Hrannar eftir brotið, dómarinn kunni lítt að meta athugasemdir hans og rak liðsstjórann á brott. Hallgrímur Mar meiddist sem betur fer ekki og lék þær fáeinu mínútur sem lifðu leiks.
Ekki var sérlega hlýlegt á Skaganum í kvöld, töluverður vindur og aðeins nokkrar gráður. Ekki ákjósanlegar aðstæður fyrir tilþrif eins og þau gerast best, en KA-menn létu skynsemina ráða og uppskáru eins og til var sáð. Náðu að skora snemma og gátu því lagt áherslu á að verja eigið mark og freista þess að ógna með hröðum sóknum, sem þeim tókst einmitt nokkrum sinnum – og fengu flest hættulegustu færi leiksins.
Ánægjulegt er að sjá hve fyrirliðinn, Ásgeir Sigurgeirsson, er orðinn öflugur á ný eftir erfið meiðsli. Hann er stöðugt á ferðinni, ógnar með hraða og krafti og sinnir ekki síður varnarhlutverki en því að hrella varnir andstæðinganna. Annars var lið KA öflugt í kvöld, vörnin sterk og varnarleikur liðsheildarinnar í raun framúrskarandi. Skagamenn náðu ekki að ógna og eru raunar í verulegum vandræðum, í neðsta sæti með aðeins fimm stig eftir átta leiki.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.
- Valur vann Breiðablik í kvöld, 3:1, á heimavelli og fór á toppinn. Hefur nú 20 stig eftir níu leiki, Víkingur er með 18 stig að loknum átta leikjum en KA með 16 stig eftir sjö leiki sem fyrr segir.
- Svo skemmtilega vill til að í næstu umferð, strax á sunnudaginn, koma Valsmenn í heimsókn norður og mæta KA-mönnum.
- Með sigri á sunnudaginn kæmist KA upp í 19 stig, einu á eftir Val, en ætti þó enn tvo leiki til góða á Reykvíkingana.
Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni og alla leiki sumarsins.