Nökkvi með þrennu og KA í átta liða úrslit
KA-menn eru komnir í átta liða úrslit bikarkeppninnar í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninnar, eftir 4:1 sigur á Fram á KA-vellinum (Greifavellinum) i dag. Nökkvi Þeyr Þórisson gerði þrjú mörk, þar af tvö úr víti, og Hallgrímur Mar Steingrímsson það fjórða.
1:0 Dæmt var víti á Ólaf markvörð Fram þegar hann sparkaði í Ásgeir Sigurgeirsson sem sótti að honum eftir lélega sendingu frá varnarmanni. Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði örugglega úr vítinu, þegar tæpar fjórar mínútur voru liðnar.
2:0 KA fékk aftur víti þegar langt var liðið á fyrri hálfleikinn, aftur eftir slæm mistök í vörn Fram. Ásgeir fékk sendingu inn fyrir vörnina, Hosine Bility braut á honum inni í teig og víti var réttilega dæmt. Bility var rekinn af velli; hafði fengið gult spjald fimm mínútum fyrr og Þorvaldur Árnason dómari lyfti því á ný. Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði aftur af miklu öryggi.
- KA-menn voru ljónheppnir á lokamínútu fyrri hálfleiksins þegar Þorvaldur dæmdi aukaspyrnu rétt utan vítateigs þeirra. Brotið var hins vegar augljóslega inni í teig. Ekkert varð úr aukaspyrnunni.
2:1 Þorvaldur dæmdi þriðja vítið á 70. mínútu þegar Þorri Mar KA-maður braut á Tryggva Snæ Geirssyni. Guðmundur Magnússon skoraði úr vítinu. þetta var á 70. mínútu.
3:1 Nökkvi Þeyr gerði þriðja markið á 80. mínútu og þau gerast ekki auðveldari. Eftir laglegt spil KA-manna sendi Hallgrímur Mar fyrir markið og Nökkvi þurfti aðeins að ýta boltanum í tómt markið.
4:1 Það var svo á 87. mín. að Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði endanlega út um leikinn. Hann fékk boltann frá Jakobi Snæ og skoraði með vinstri fæti frá vítateigslínu; boltinn fór í stöngina fjær og þaðan í netið.
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna