Fara í efni
Íþróttir

Tvöföld helgi hjá báðum blakliðum KA

Úr leik KA og Aftureldingar í úrslitarimmunni síðastliðið vor. Mynd: akureyri.net.

Kvenna- og karlalið KA í blaki mæta liðum Aftureldingar í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ í dag. Karlaliðin mætast kl. 13:30 og kvennaliðin kl. 15:45. Bæði lið unnu örugga sigra á HK í gær og tróna á toppi Unbroken-deildanna.

Karlalið KA fór á topp Unbroken-deildarinnar í gær með 3-0 sigri á HK, en KA hefur nú 12 stig úr fimm leikjum. Hamar fylgir þeim eins og skugginn með 11 stig úr fjórum leikjum og þá kemur Vestri í 3. sætinu með tíu stig úr sex leikjum.

Konurnar ósigraðar og á toppnum

Kvennalið KA er áfram ósigrað á toppnum, hefur unnið fyrstu fjóra leiki sína og er með 12 stig. KA-konur mættu HK í Kópavoginum í dag og unnu þar 3-0 sigur. Liðið hefur ekki enn tapað hrinu í mótinu, hefur unnið alla fjóra leiki sína til þessa 3-0.

Eins og karlaliðið spila konurnar aftur í dag, en þá mæta þær liði Aftureldingar í íþróttahúsinu að Varmá í Mosfellsbæ. Leikurinn hefst kl. 15:45. KA og Afturelding mættust í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í vor og aftur í meistarakeppni BLÍ núna í haust og hafði KA sigur í bæði skiptin, 3-2. 

KA er á toppi deildarinnar eins og áður sagði, komnar með 12 stig. Völsungur og Afturelding eru með níu stig úr fjórum leikjum og því mikilvægt fyrir KA að ná góðum leik í Mosfellsbænum í dag og styrkja stöðuna á toppnum.