Fara í efni
Íþróttir

Vítaspyrnumaraþon og Þór vann – MYNDIR

Leikmenn Þórs fagna markverði sínum, Aroni Birki Stefánssyni eftir að hann varði spyrnu Hans Viktors Guðmundssonar og tryggði Þórsurum sigur. KA-maðurinn er að vonum ekki eins kátur. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór sigraði í Kjarnafæðismóti karla í knattspyrnu eins og fram kom á Akureyri.net í gærkvöldi. KA-menn höfðu unnið þetta árlega æfingamót Knattspyrnudómarafélags Norðurlands sjö sinnum í röð þannig að sigur Þórsara var langþráður og þeir glöddust mjög eftir að hafa rofið sigurgöngu nágranna sinna. Æfingamót eða ekki ...

Ekkert var skorað á hinum hefðbundnu 90 mínútum og strax að þeim loknum hófst vítaspyrnukeppni. Enn var jafnt, 4:4, þegar hvort lið hafði tekið fimm spyrnur og það var ekki fyrr en eftir 16 víti sem úrslit réðust; Þórsarar fögnuðu þá 7:6 sigri.

Næsta verkefni KA er Meistarakeppni KSÍ á sunnudaginn, 30. mars. Þá mætast Íslandsmeistarar Breiðabliks og bikarmeistarar KA í árlegri viðureign sem markar jafnan upphaf hins alvöru keppnistímabils, ef svo má segja. Viðureignin fer fram á Kópavogsvelli og hefst kl. 16.15. Sigurvegarinn telst Meistari meistaranna.

VÍTASPYRNUKEPPNIN Í GÆR

ÞÓR - KA 1:0 Rafael Victor tók fyrstu spyrnuna fyrir Þór og skoraði mjög örugglega.

ÞÓR - KA 1:1 Ásgeir Sigurgeirsson spyrnti fyrstur KA-manna og skoraði ekki síður örugglega en Rafael.

ÞÓR - KA 2:1 Aron Ingi Magnússon tók annað víti Þórsara, Daninn William Tönning kastaði sér í rétt horn en spyrnan var of föst til þess að hann næði til knattarins. Tilkynnt var í gær að Tönning hefði samið við KA og hann fékk strax að spreyta sig; byrjaði á bekknum en leysti Steinþór Má Auðunsson af hólmi snemma leiks þegar þegar Steinþór fékk höfuðhögg. 

ÞÓR - KA 2:2 Hrannar Björn Steingrímsson skoraði úr öðru víti KA – enn ein gríðarlega örugga spyrnan.

ÞÓR - KA 3:2 Ekki var fimmta vítið síðra en hin fyrri; Peter Ingi Helgason skoraði fyrir Þór.

ÞÓR - KA 3:3 Ívar Örn Árnason var feykilega öruggur þegar hann tók þriðja víti KA. Í vítakeppni úrslitaleiks Kjarnafæðismótsins í fyrra spyrnti Ívar í hitt hornið, þá varði Aron Birkir Stefánsson frá honum og freistaði þess að endurtaka leikinn í gær. Að þessu sinni hafði Ívar Örn betur í því andlega stríði sem vítaspyrna er!

ÞÓR - KA 3:3 Nýr leikmaður Þórs, spænski varnarmaðurinn Juan Guardia Hermida, steig næstur fram en honum brást bogalistin. Tönning giskaði á rétt horn og varði.

ÞÓR - KA 3:3 Ingimar Torbjörnsson Stole gat náð frumkvæðinu fyrir KA menn en hann þrumaði yfir markið.

ÞÓR - KA 4:3 Vilhelm Ottó Biering Ottósson tók níunda vítið – fimmta víti Þórs – og var öryggið uppmálað.

ÞÓR - KA 4:4 Bjarni Aðalsteinsson var næstur KA-manna í röðinni og skoraði örugglega. Í fyrra var það Bjarni sem tryggði KA sigur í vítaspyrnukeppninni og þar með Kjarnafæðismótinu þegar hann skoraði úr síðasta vítinu.

ÞÓR - KA 5:4 Atli Þór Sindrason spyrnti fyrstur Þórsara í „framlengingunni“, Tönning veðjaði á rétt horn en náði ekki til knattarins.

ÞÓR - KA 5:5 Aron Birkir veðjaði einnig á rétt horn þegar Jakob Snær Árnason spyrnti fyrir KA en skotið var fast og Jakob jafnaði.

ÞÓR - KA 6:5 Nökki Hjörvarsson skaut næst fyrir Þór, Tönning var mjög nálægt því að verja en skotið var fast og knötturinn smaug undir hann og í netið.

ÞÓR - KA 6:6 Andri Fannar Stefánsson var öryggið uppmálað og jafnaði úr sjöundu spyrnu KA. 

ÞÓR - KA 7:6 Kristófer Kristjánsson steig næstur fram fyrir Þór, sá danski kastaði sér í rétta átt í fimmta skipti en náði ekki að komast í veg fyrir skotið.

ÞÓR - KA 7:6 Hans Viktor Guðmundsson fékk það hlutverk að taka áttundu vítaspyrnu KA og það reyndist sú síðasta í gærkvöldi. Aron Birkir kastaði sér í rétta átt og varði örugglega.