Fara í efni
Íþróttir

Mæðginin Magnús og Hrefna urðu meistarar

Mæðginin, Hrefna Magnúsdóttir og Magnús Finnsson, eftir að Magnús lauk keppni á 18. braut í gær.

Magnús Finnsson varð Akureyrarmeistari 1. flokki í golfi í gær og svo skemmtilega vill til að móðir hans, Hrefna Magnúsdóttir, varð Akureyrarmeistari í 2. flokki.

Bæði eru mæðginin þekktari sem skíðamenn en kylfingar; Magnús varð þrisvar Íslandsmeistari í fullorðinsflokki; 2013 í samhliða svigi og síðan bæði í svigi og alpatvíkeppni 2018. Hann var landsliðsmaður og keppti fjórum sinnum á heimsmeistaramóti unglinga og í tvígang á HM fullorðinna á skíðum, 2015 og 2017. Hrefna var á sínum tíma í unglingalandsliðinu og varð fjórfaldur Íslandsmeistari unglinga á skíðum 1980.

Magnús fór á golfnámskeið sem stráklingur, upp úr tvítugu fór hann að leika reglulega og tók golfið fastari tökum fyrir nokkrum árum. Móðir hans fór fyrst á byrjendanámskeið árið 2018.

  • Nefna verður önnur mæðgin sem náðu þeim glæsilega árangri að verða Akureyrarmeistarar í meistaraflokki sama árið; Inga Magnúsdóttir og Magnús Birgisson. Inga varð Akureyrarmeistari 10 ár í röð, frá 1979 til 1988, og það var 1983 sem Magnús sigraði einnig. Hann er kunnur golfkennari, starfar einmitt hjá Golfklúbbi Akureyrar í sumar og varð í þriðja sæti í flokki „öldunga“ 50 ára og eldri á Akureyrarmótinu að þessu sinni.

Hrefna Magnúsdóttir, til hægri, og Guðrún Gísladóttir á 10. flöt í vikunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.