Fara í efni
Íþróttir

Lárus Ingi á fjórum undir pari lokadaginn

Lárus Ingi Antonsson úr GA var í ham í dag og lék best allra - fór hringinn á 67 höggum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Lárus Ingi Antonsson, Akureyringurinn ungi, lék næst best allra á lokadegi Íslandsmótsins í golfi í dag. Lárus Ingi fór holurnar 18 á 67 höggum; fyrri níu á 37 höggum en lék seinni hluta vallarins frábærlega – á 30 höggum. Hann fór þá fjórar holur á pari en hinar fimm allar á fugli, einu höggi undir pari. Vert er að geta þess að enginn annar náði því á mótinu að leika fyrri eða seinni níu holur vallarins á svona fáum höggum.

Best allra lék Breki Gunnarsson Arndal úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðarbæjar. Hann gerði sér lítið fyrir og lék hringinn á 66 höggum, en það skilaði litlu því hina dagana lék hann á 77, 80 og 77 og endaði á 15 höggum yfir pari.

Góð frammistaða í dag gerði það að verkum að Lárus Ingi, sem var í fimmta síðasta hollinu í dag, komst upp í 3. sæti sem hann deilir með þremur öðrum. Lék samtals á 283 höggum eins og Tumi Hrafn Kúld, félagi hans úr GA, Birgir Björn Magnússon, Keili, og Hlynur Bergsson, GKG.

Þrír léku á 68 höggum í dag, Hákon Örn Magnússon GR, Aron Emil Gunnarsson, Golfklúbbi Selfoss og Axel Bóasson, Keili, og einn á 69, Kristófer Orri Þórðarson, GKG. Aðrir léku ekki undir 70 höggum.

Smelltu hér til að sjá skor allra í karlaflokki.