Fara í efni
Íþróttir

Lárus aftur á tveimur höggum undir pari

Lárus Ingi Antonsson hefur leikið vel tvo daga í röð eftir slæman fyrsta dag á Íslandsmótinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Lárus Ingi Antonsson lék best Akureyringa í dag, á þriðja keppnisdegi af fjórum á Íslandsmótinu í golfi í Vestmannaeyjum; Lárus lék hringinn á 68 höggum eins og í gær og er í 32. sæti á alls 217 höggum. Hann náði sér ekki á strik fyrsta daginn sem gerir það að verkum að Lárus Ingi er ekki mun ofar í keppendahópnum. Hann lék þá á 81 höggi, 13 höggum meira en í gær og dag.

Andrea Ýr Ásmundsdóttir, eini Akureyringurinn í kvennaflokki, lék betur í dag en áður á mótinu; fór brautirnar 18 á 71 höggi, einu yfir pari vallarins. Hin 15 ára Perla Sól Sigurbrandsdóttir er enn með forystuna en fyrir síðasta dag mótsins munar aðeins einu höggi á henni og Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur.

Kristján Þór Einarsson, Golfklúbbi Mosfellsbæjar, lék á 64 höggum í dag, sex undir pari, og stökk úr níunda sæti upp í það efsta. Hann hefur leikið samtals á 204 höggum og hefur tveggja högga fyrstu fyrir síðasta dag á mann þessa þriðja keppnisdags, Sigurð Bjarka Blumenstein úr Golfklúbbi Reykjavík. Sigurður lék hringinn í dag á aðeins 62 höggum, átta undir pari, og jafnaði vallarmetið. Hann skaust upp um 24 sæti með þeirri frábæru spilamennsku.

Karlaflokkur; efstu menn og Akureyringarnir: 

204 Kristján Þór Einarsson, GM 70 70 64 – 1. sæti; samtals sex höggum undir pari

206 Sigurður Bjarki Blumenstein, GR 75 69 62 – 2.-3. sæti; fjórum höggum undir pari

206 Kristófer Orri Þórðarson, GKG 66 71 69 – 2.-3. sæti; fjórum höggum undir pari

.....

217 Lárus Ingi Antonsson GA 81 68 68 – 32. sæti; sjö höggum yfir pari

222 Skúli Gunnar Ágústsson GA 76 73 73 – 53. sæti; 12 höggum yfir pari

225 Veigar Heiðarsson GA 78 73 74 – 60. sæti; 15 höggum yfir pari

Fjórði Akureyringurinn í karlaflokki, Óskar Páll, komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir tvo fyrstu dagana.

Kvennaflokkkur:

209 Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR 70 70 69 – 1. sæti; samtals á einu höggi undir pari vallarins

210 Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR 74 69 67 – 2. sæti; á pari

219 Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Keili 76 71 72 – 3. sæti; níu höggum yfir pari

225 Andrea Ýr Ásmundsdóttir, GA 76 78 71 – 9. sæti; samtals 15 höggum yfir pari

  • Ríkissjónvarpið sýnir beint frá síðasta degi Íslandsmótsins á morgun og hefst útsendingin klukkan 14.30. Óhætt er að segja að veðurspáin er ekki hagstæð kylfingunum; spáð er rigningu og hávaðaroki, 16 metrum á sekúndu.