Íþróttir
KA vann Aftureldingu og mætir Þrótti í úrslitum
06.03.2025 kl. 22:35

KA-menn sigri hrósandi eftir sigurinn á Aftureldingu í Kópavogi í kvöld. Mynd af Facebook síðu KA.
Karlalið KA sigraði Aftureldingu í kvöld í undanúrslitum bikarkeppninnar í blaki og leikur til úrslita á laugardaginn gegn Þrótti sem vann HK fyrr í dag.
Leikurinn var í kvöld stórskemmtilegur og spennandi. Oddahrinu þurfti til að knýja fram úrslit eftir að hvort lið vann tvær hrinur.
KA-menn, sem eru efstir á Íslandsmótinu, náðu sér ekki á strik í fyrstu hrinunni og Afturelding vann hana af miklu öryggi, 25:16. KA sneri við blaðinu og vann tvær hrinur afar sannfærandi, báðar 25:18. Þá var komið að leikmönnum Aftureldingar að bíta frá sér; þeir unnu fjórðu hrinuna 25:18.
Oddahrinan var æsispennandi og sveiflukennd, en KA-menn fögnuðu innilega eftir 15:10 sigur.